Innlent

Óvissu létt en mörg flókin mál óútkljáð

Ásta Sigrún Helgadóttir
Ásta Sigrún Helgadóttir

„Ég mun fylgjast mjög vel með framhaldi þessa máls. Það má segja að nú hafi aðeins verið stigið eitt skref af mörgum þar sem mörgum spurningum er enn ósvarað,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Ásta slær varnagla við að oftúlka tíðindi dagsins. Í flestum tilfellum muni höfuðstóll lána lækka verulega frá þeim tíma þegar gengistryggð lán töldust lögmæt en líta verði til þess að sú niðurstaða að vextir skuli á hverjum tíma vera jafnháir lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands geti reynst skuldurum afar þungur baggi. Fer slíkt eftir því á hvaða tíma hið ólögmæta gengistryggða lán var tekið.

„Lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands eru nú 7,75 prósent, en á tímabilinu frá september 2006 til júní 2009 voru lægstu óverðtryggðu vextir frá fimmtán til 21 prósent. Þessa vexti þurfa sumir skuldarar nú að borga.“

Ásta fagnar því að óvissu hafi verið létt af þúsundum heimila með þessum fordæmisgefandi dómi. Óvissan um vexti þessara lána hafi reynst skuldurum mjög erfið og tafið það mjög að einstaklingar í greiðsluerfiðleikum geti áttað sig á sinni raunverulegu skuldastöðu og endurskipulagt fjármál sín í samræmi við hana. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×