Erlent

Var reiður vegna skopmyndanna

Lors Doukaiev
Lors Doukaiev

Téténski sprengjumaðurinn Lors Doukaiev, sem handtekinn var í Kaupmannahöfn á föstudag, hefur árum saman verið fullur reiði vegna skopmyndanna af Múhameð spámanni, sem danska dagblaðið Jyllandsposten birti haustið 2005.

Þetta er haft eftir belgískri eiginkonu boxþjálfara sprengjumannsins, sem rætt hefur við blaðamann dönsku dagblaðanna Berlingske Tidende og BT í Belgíu.

Það var boxþjálfarinn, Albert Syben, sem bar kennsl á manninn í viðtölum við blaðamann á BT, en danska lögreglan gat ekki sjálf rannsakað málið í Belgíu heldur þurfti að treysta á rannsókn belgísku lögreglunnar.

Doukaiev er fæddur í Téténíu en hefur búið í Belgíu í fimm ár. Hann hefur stundað þar box og staðið sig vel þrátt fyrir að vera einfættur, að sögn eiginkonu þjálfarans.

Maðurinn var handtekinn eftir að sprengiefni, sem hann var með, sprakk á salerni lítils hótels í Kaupmannahöfn, þar sem hann hafði dvalist um skeið. Ekki er vitað hvað hann hugðist fyrir, en danskir fjölmiðlar hafa verið með getgátur um að hann hafi ætlað að ráða ritstjóra dagblaðsins Jyllandsposten bana.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×