Lífið

Ungmeyjar grétu þegar meðlimir Árstíða árituðu

árstíðir Þjóðlagahljómsveitin Árstíðir nýtur aðstoðar umboðskonunnar Mariu Chelnokovu.
árstíðir Þjóðlagahljómsveitin Árstíðir nýtur aðstoðar umboðskonunnar Mariu Chelnokovu.
Þjóðlagahljómsveitin Árstíðir hefur ráðið rússneska umboðskonu sem bókar nú hvert giggið á fætur öðru í Austur-Evrópu.

Þjóðlagahljómsveitin Árstíðir hefur ráðið til sín rússnesku umboðskonuna Mariu Chelnokovu. Hún sér um að bóka tónleika fyrir sveitina í Austur-Evrópu og víðar og koma henni á framfæri í fjölmiðlum.

„Hún vinnur fyrir rússneskan menningarsjóð og fann okkur í gegnum IMX [Iceland Music Export],“ segir söngvarinn Ragnar Ólafsson. „Hún hafði samband síðasta vor og vildi fá okkur á tónleika í Rússlandi.“ Árstíðir tóku boðinu fagnandi og drifu sig í tíu daga túr til Finnlands og Rússlands. „Þetta var alveg frábært. Það var þvílík mæting, 250 manns að jafnaði á tónleikum og stofnaður aðdáendaklúbbur í St. Pétursborg. Við spiluðum í aðalmenningarhúsinu í Moskvu og rússnesk sjónvarpsstöð tók upp tónleikana og við fórum í viðtal á nokkrum útvarpsstöðvum. Síðan höfum við verið að dúkka upp í alls konar tímaritum,“ segir Ragnar, sem er gríðarlega ánægður með störf Mariu. „Þessi túr sem við fórum á sýnir hvers hún er megnug. Við erum í skýjunum með að hafa fundið þessa manneskju.“

En hvers vegna eru Árstíðir svona vinsælt band í Rússlandi? „Ísland hefur gott orð á sér þarna og íslensk tónlist er spennandi, enda eru Sigur Rós og múm dáðar þarna úti,“ útskýrir Ragnar. „Síðan er líka mjög mikil þjóðlagahefð í Austur-Evrópu og það sem Árstíðir eru að gera hittir beint í mark. Við lentum meira að segja í því að unglingsstúlkur voru að bresta í grát þegar við árituðum plötuna okkar.“

Hljómsveitin ætlar í tvær tónleikaferðir um Rússland og víðar um Austur-Evrópu í ágúst á næsta ári sem standa alls yfir í tvo mánuði. Ný plata verður tekin upp næsta sumar og vilja Ragnar og félagar tryggja sér dreifingarsamning í Rússlandi áður en farið verður út. „Flest bönd á Íslandi reyna við Bandaríkja- og Bretlandsmarkað en það er mjög erfiður markaður. Við ætlum að bíða með það og hamra járnið í Austur-Evrópu og Rússlandi á meðan það er svona funheitt,“ segir Ragnar.

Næstu tónleikar Árstíða hér heima verða í Fríkirkjunni á Þorláksmessu þar sem hljómsveitin spilar sín eigin lög í bland við jólalög í nýjum útsetningum.freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.