Viðskipti innlent

Áfengisverðið hefur áhrif á vísitölu og vínmenningu

Á Íslandi eru ein hæstu áfengisgjöld sem þekkjast í heiminum fréttablaðið/anton
Á Íslandi eru ein hæstu áfengisgjöld sem þekkjast í heiminum fréttablaðið/anton
Verð á áfengi hefur hækkað mikið á síðustu árum. Alþingi samþykkti í fyrra breytingar á áfengisgjöldum, sem gerðu það að verkum að gjöldin hækkuðu um rúm fjörutíu prósent á tólf mánuðum.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hagstofunni voru neysluútgjöld heimilanna um 426 þúsund krónur á mánuði árin 2006 til 2008. Af því er áfengi 86.363 krónur á ári, 1,7 prósent, sem er nákvæmlega sama hlutfall og fyrir árin 2005 til 2007, þrátt fyrir hækkandi áfengisverð.

„Útgjöld fyrir áfengi og tóbaki eru oft vantalin í útgjaldarannsóknum,“ segir Lára G. Jónasdóttir, sérfræðingur hjá vísitöludeild Hagstofunnar. Hún segir niðurstöður rannsóknarinnar því einnig byggja á sölutölum frá ÁTVR.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir stefnu stjórnvalda varðandi hátt verðlag á áfengi gríðarlega óheppilega þar sem það hækki einnig vísitölu neysluverðs og þar með verðtryggð lán í landinu.

„Í þessu samhengi höfum við gagnrýnt hækkun áfengisgjalda í kjölfar hrunsins þegar heimilin eru í vandræðum með að borga af sínum verðtryggðu lánum,“ segir Jóhannes. „Hversu hátt er svo mögulegt að fara með áfengisverðið áður en það kemur aftur í bakið á ríkinu með minnkandi neyslu og því orðspori sem fer af Íslandi erlendis, er svo aftur annar punktur.“

Stefán Guðjónsson, rekstrarstjóri veitingahússins Einars Ben og framkvæmdastjóri vefsíðunnar www.smakkarinn.is, segir rök stjórnvalda fyrir hækkandi áfengisgjöldum vera út í hött og sorglegt sé hvaða áhrif þau séu farin að hafa á vínmenningu landsins.

„Þetta eykur ólöglegt brugg á áfengi, smygl og landasölu,“ segir hann. „Mikið af þessum efnum er mjög hættulegt.“ Stefán segir að vínumboðin séu svo til hætt að kaupa dýrari og fínni vín, einfaldlega vegna þess að fólk hefur ekki lengur efni á að njóta þeirra. „Verðið hefur hækkað og launin standa í stað. Vínmenning á Íslandi í dag er á sama stað og hún var fyrir 18 árum. Þetta er skelfileg þróun.“

Ísland og Noregur eru með hæstu áfengisgjöld sem þekkjast í Evrópu. Hin Norðurlöndin eru með lægri áfengisgjöld, en lægst eru þau í Danmörku og Finnlandi. Norðurlöndin eru samt með einna hæstu opinberu álögurnar í Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Áfengisverð í Noregi er enn hærra en á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, en þar kemur hrun krónunnar einnig til. Áfengi var á síðasta ári um 68% dýrara en í aðildarríkjum Evrópusambandsins að meðaltali. Í sambærilegum samanburði fyrir árið 2006 var það um 128% dýrara. Munurinn hefur minnkað, en það kemur íslenskum neytendum ekki til góða, þar sem kaupmáttur hefur rýrnað að sama skapi vegna falls krónunnar.

Áfengisgjaldið sem rennur í ríkissjóð er rúmlega 80 prósent af verði á sterku víni og um 65 prósent af léttvíni og bjór. Hækkun þess í fyrra átti að auka tekjur ríkisins um fjóra milljarða króna á ári. Eins og Fréttablaðið skýrði frá í vikunni borgaði ÁTVR 960 milljónir króna í ríkiskassann fyrir árið 2009, en álagning vínbúðanna hefur hækkað til viðbótar við snarhækkuð áfengisgjöld.

sunna@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×