Lífið

Ölstofan með eigin Bríó-bjór

Kormákur og Skjöldur með Bríó-bjórinn sem er eingöngu fáanlegur á Ölstofunni. mynd/arnar halldórsson
Kormákur og Skjöldur með Bríó-bjórinn sem er eingöngu fáanlegur á Ölstofunni. mynd/arnar halldórsson
„Hann er algjör snilld. Hann er strax orðinn söluhæsti bjórinn á Ölstofunni,“ segir Kormákur Geirharðsson, veitingamaður hjá Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Fyrsti bjórinn frá Borg, nýju brugghúsi Ölgerðarinnar, nefnist Bríó og er sérstaklega bruggaður fyrir Ölstofu Kormáks og Skjaldar. „Það er mikið humlabragð af þessum bjór. Hann er afskaplega svalandi og ekki of rammur,“ segir Kormákur, hæstánægður með nýja mjöðinn.

Hálft ár er síðan Kormákur og Skjöldur Sigurjónsson byrjuðu að smakka bjórinn til í samvinnu við sérfræðinga Ölgerðarinnar. Ölstofan seldi lengi vel Grolsch-bjór frá Ölgerðinni en eftir að nýja brugghúsið fór af stað bauðst Kormáki og Skildi að þróa sinn eigin bjór.

Nafnið Bríó er í höfuðið á hljóð- og tónlistarmanninum Steingrími Eyfjörð sem lést á síðasta ári. Það var Karlakór alþýðunnar, þar sem Steingrímur var kórstjóri, sem söng lagið Stúlkan frá Týról þar sem setningin „Svona er að vera bríó“ kemur fyrir í textanum. Steingrímur var kallaður Bríó í framhaldi af því. „Hann var mikill og góður kúnni hjá okkur og mikill vinur minn og okkar strákanna. Þetta er honum til heiðurs enda var hann mikill bjóráhugamaður. Svo þýðir Bríó líka að vera léttlyndur og hress, þó að hlutirnir gangi kannski ekki alltaf upp,“ segir Kormákur. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.