Fótbolti

Platini: Dómarar hafa engar afsakanir lengur

Elvar Geir Magnússon skrifar

Michel Platini, forseti UEFA, er hæstánægður með árangurinn af tilraununum með notkun fimm dómara. Hann segir að ekki sé lengur pláss fyrir slaka dómara í fótboltanum.

Bætt var við dómurum fyrir aftan endalínuna á leikjum Evrópudeildarinnar síðasta tímabil og verður sami háttur hafður á í leikjum Meistaradeildarinnar í vetur.

„Ef þú getur ekki séð af þriggja metra færi hvort boltinn hafi farið innfyrir marklínuna þá ertu ekki góður dómari. Sú stund er runnin upp að dómarar geta ekki afsakað sig lengur," segir Platini.

„Þessir aukadómarar eru í góðri aðstöðu til að sjá hvort boltinn hafi farið inn eða ekki. Ég tel þetta bestu lausnina í þeim vafamálum. Við höfum alltaf afsakað dómara með því að þeir geta ekki verið með augu á öllu. Nú geta þeir það. Ef þeir ná ekki að dæma um hvort mark hafi verið skorað ættu þeir að leita sér að nýju starfi."

Ítalinn Pierluigi Collina er orðinn æðsti maður í dómaramálum í Evrópu. „Með fimm dómara er hægt að fylgjast vel með öllum hugsanlegum brotum í teignum þegar föst leikatriði eru framkvæmd. Leikmenn eru meðvitaðir um það og brjóta síður af sér," segir Collina.

„Það er kominn tími til að breyta ímynd dómara. Krafan á að þeir séu í betra formi er orðin mikil. Þeir eru ekki lengur bara dómarar, þeir eru íþróttamenn í kringum íþróttamenn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×