Lífið

Hljóðupptökunám í Orlando

Benedikt stundar nám í hljóðupptökutækni við virtan háskóla í Orlando í Bandaríkjunum.
fréttablaðið/stefán
Benedikt stundar nám í hljóðupptökutækni við virtan háskóla í Orlando í Bandaríkjunum. fréttablaðið/stefán
„Þetta er mjög nútímalegur skóli og það er frábært að vera þarna,“ segir Benedikt Steinar Benediktsson. Hann stundar nám í hljóðupptökutækni við hinn virta háskóla Full Sail í Orlando í Bandaríkjunum. Benedikt er í BA-námi um þessar mundir og hyggur á meistaranám að því loknu.

Full Sail er þriðji stærsti háskólinn í Bandaríkjunum sem leggur áherslu á tónlistar- og kvikmyndageirann og eins og gefur að skilja kostar námið skildinginn. „Ég er að borga 70 þúsund dollara fyrir BA-gráðu og svo auka 50 þúsund fyrir master, auk kostnaðarins við að búa þarna. Þetta er dýrt en þetta borgar sig alveg,“ segir Benedikt, sem er 22 ára.

Þeir sem útskrifast úr hljóðupptökutækni starfa meðal annars við að setja hljóð inn á kvikmyndir og við að taka upp tónlist fyrir aðra. Benedikt hefur sjálfur unnið töluvert með íslenska hip hop-upptökuteyminu Redd Lights, sem hefur starfað með söngvaranum Friðriki Dór, auk þess sem hann gaf út hip hop-plötuna Svona rúllum við undir merkjum Benna Valdez og Brisk. Benedikt kynntist nemanda í Full Sail sem hefur samið tónlist fyrir útgáfufyrirtæki sem er í eigu rapparans 50 Cent. Þessi strákur hefur fengið tónlist frá Redd Lights í hendurnar og hugsanlega kemur eitthvað út úr því á næstunni.

Benedikt flaug aftur til Orlando í gær eftir vikufrí á Íslandi. Hann lýkur BA-prófinu eftir tíu mánuði og eftir það taka við tólf mánuðir í strembnu meistaranáminu. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.