Hversu nærri úrslitunum fóru skoðanakannanir sem gerðar voru fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006?
Lítið hefur verið um skoðanakannanir fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í dag. Fréttablaðið og Stöð 2 gerðu samtals 13 kannanir í níu sveitarfélögum. Morgunblaðið lét gera eina könnun í Reykjavík, og Ríkisútvarpið birti könnun fyrir Reykjavík í gærkvöldi. Þá létu einhverjir staðbundnir fjölmiðlar einnig gera kannanir í sínum sveitarfélögum.
Að auki voru niðurstöður einhverra af þeim könnunum sem stjórnmálaflokkarnir fengu könnunarfyrirtæki til að gera fyrir sig birtar í fjölmiðlum.
Talsvert fleiri kannanir voru birtar dagana fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, í maí 2006. Einkum var þar um að ræða kannanir Fréttablaðsins, Gallup og Félagsvísindastofnunar.
Þegar kjörfylgi flokka í borgar-stjórnarkosningunum í Reykjavík í kosningunum 2006 eru borin saman við síðustu kannanir fyrir kosningar sést að könnun Gallup komst næst úrslitunum. Kannanir Fréttablaðsins og Félagsvísindastofnunar voru heldur fjær niðurstöðum kosninganna.
Gallup var að meðaltali 1,3 prósentustigum frá réttu fylgi flokka. Kannanir Félagsvísindastofnunar voru að meðaltali 1,8 prósentustigum frá kjörfylgi, og 1,9 prósentustigum munaði að meðaltali hjá Fréttablaðinu.
Raunar komst Gallup næst úrslitunum í könnun sem birt var á fimmtudeginum fyrir kosningar, en aðeins var eins prósentustigs munur á niðurstöðum þeirrar könnunar og kjörfylgi flokkanna. Í síðustu könnuninni, sem birt var daginn eftir, munaði meiru.
Kannanir Gallup, Félagsvísindastofnunar og Fréttablaðsins mældu allar stuðning við framboð Framsóknarflokksins í Reykjavík undir kjörfylgi. Flokkurinn fékk 6,3 prósent í kosningunum. Minnstu munaði hjá Gallup, 0,4 prósentustigum, en mestu hjá Fréttablaðinu, 1,8 prósentustigum.
Fréttablaðið var næst fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnun sinni, en eins og kannanir Gallup og Félagsvísindastofnunar mældi könnunin fylgi við flokkinn meira en það reyndist vera. Fréttablaðið var 0,3 prósentustigum frá kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins, en Félagsvísindastofnun 4,3 prósentustigum.
Allar kannanir vanmátu stuðning við Frjálslynda flokkinn. Þar var Félagsvísindastofnun næst kjörfylgi, 1,6 prósentustigum undir, en Gallup fjærst, 2,8 prósentustigum undir kjörfylgi.
Könnun Gallup var aðeins 0,1 prósentustigi frá kjörfylgi Samfylkingarinnar. Fréttablaðið ofmældi fylgi flokksins um 4,3 prósentustig, en Félagsvísindastofnun vanmat stuðning við flokkinn um 1,8 prósentustig.
Félagsvísindastofnun komst næst því að spá fyrir um fylgi Vinstri grænna, og mældi stuðning við flokkinn aðeins 0,2 prósentustigum yfir kjörfylgi. Fréttablaðið ofmat fylgi flokksins um eitt prósentustig, en Gallup vanmat fylgið um 0,5 prósentustig.
brjann@frettabladid.is