Viðskipti innlent

Þúsundir spila víkingaleik

„Leikurinn hefur gengið frábærlega vel. En það er auðvitað verk að vinna," segir Jón Heiðar Þorsteinsson, markaðsstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic, sem á og rekur netleikinn Vikings of Thule. Rúmlega 133 þúsund manns spila orðið leikinn í hverjum mánuði.

Vikings of Thule er hlutverkaleikur sem spilaður er í gegnum samfélagsvefinn Facebook. Notendur fá þar hlutverk víkingahöfðingja sem stefna með vopnaskaki og öðrum hætti á að komast til æðstu metorða á Alþingi.

Á upplýsingasíðunni Appdata, sem mælir notkun leikja á samfélagsvefjum kemur fram að 13.268 manns spili leikinn á hverjum degi. Síðastliðinn mánuð hafi 133.636 manns spilað hann. Jón Heiðar bendir á að leikurinn hafi tekið kipp í ágúst þegar markaðssetning hófst á leiknum og hann fór að fá góða dóma og umfjöllun á alþjóðlegum tölvuleikjavefjum eins og til dæmis hjá leikjatímaritinu PC Gamer.

Til samanburðar er langvinsælasti netleikurinn FarmVille, samkvæmt upplýsingum Appdata. Hann spiluðu rúmlega 61,7 milljónir manna í síðasta mánuði. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×