Fótbolti

Wenger: Útivallarmarkið skiptir okkur öllu máli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/AFP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er bjartsýnn fyrir seinni leikinn á móti Porto í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld og það er ekki síst vegna marksins hans Sol Campbell í fyrri leiknum.

Porto vann fyrri leikinn 2-1 á Estadio do Dragao og ef Arsenal nær að komast áfram verður það í fyrsta sinn í 30 ár sem félagið vinnur upp tap úr fyrri leik í Evrópukeppni.

„Það bíður manns alltaf erfiður seinni leikur þegar þú tapar 1-0 á útivelli í fyrri leiknum því þá þarftu að skora tvö eða þrjú mörk til þess að komast áfram," segir Arsene Wenger.

„Nú er hinsvegar staðan önnur af því að við skoruðum í fyrri leiknum. Ef við skorum eitt mark og höldum hreinu þá erum við komnir áfram. Það verður samt enginn of sigurviss í mínu liði. þetta verður varhugaverður leikur en við höfum trúna og erum í góðri stöðu til þess að komast áfram," sagði Arsene Wenger.

Arsenal vann 4-0 sigur á Porto síðasta þegar Portúgalarnir komu í heimsókn á Emirates Stadium og liðið vann 3-1 sigur á Burnley um helgina á sama tíma og Porto gerði 2-2 jafntefli við Olhanense á heimavelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×