Enski boltinn

Leikir dagsins í ensku úrvalsdeildinni - sjö leikir á dagskrá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United tapaði óvænt í fyrri leiknum á móti Burnley.
Manchester United tapaði óvænt í fyrri leiknum á móti Burnley. Mynd/AFP

Toppliðin Chelsea og Manchester United spila bæði í ensku úrvalsdeildinni í dag en þá fara fram sjö leikir. Fjörið byrjar klukkan 12.45 með afar fróðlegum leik Stoke og Liverpool á Britannia-vellinum og endar með leik Everton og Man City á Goodison Park klukkan 17.30. Allir hinir fimm leikirnir hefjast klukkan 15.00.

Stoke - Liverpool (12.45)

Liverpool reynir að bæta fyrir tapið á móti Reading í vikunni og getur unnið þriðja deildarsigurinn í röð (unnu Wolves og Aston Villa). Stoke vann sinn fyrsta sigur í fjórum leikjum þegar þeir unnu 3-2 sigur á Fulham í síðasta deildarleik sínum. Liverpool vann fyrri leikinn 4-0 á Anfield með mörkum Fernando Torres, Glenn Johnson, Dirk Kuyt og David Ngog.

Chelsea - Sunderland

Chelsea heldur enn toppsætinu í deildinni en Manchester United og Arsenal hafa bæði unnið á upp á síðkastið. Chelsea er með eins stigs forskot á United og þriggja stiga forskot á Arsenal. Sunderland er aðeins búið að vinna einn af tíu útileikjum sínum á tímabilinu. Chelsea vann 3-1 sigur í fyrri leik liðanna eftir að Sunderland hafði komist yfir í leiknum. Chelsea hefur aðeins unnið 2 af síðustu 6 deildarleikjum sínum en þetta verður fyrsti deildarleikur liðsins án Didier Drogba.

Man Utd - Burnley

Burnley vann einn óvæntasta sigur tímabilsins þegar liðið vann United 1-0 í fyrri leiknum á Turf Moor. Manchester United hefur hinsvegar náð í 25 af 30 stigum mögulegum á Old Trafford og þetta verður því verðugt verkefni fyrir Burnley sem hefur ekki unnið í síðustu níu deildarleikjum sínum.

Portsmouth - Birmingham

Birmingham hefur ekki tapað í síðustu tólf deildarleikjum sínum og heimsækir neðsta lið deildarinnar. Portsmouth situr eitt á botninum fjórum stigum á eftir næsta liði en vonast til að nýta heimavöllinn vel þar sem liðið hefur unnið 3 af 4 leikjum sínum á tímabilinu.

Tottenham - Hull City

Hull mun reyna að hefna fyrir fyrri leikinn sem Tottenham vann 5-1 á útivelli. Jermain Defoe skoraði þrennu í þeim leik og er markahæstur í deildinni ásamt þeim Didier Drogba og Wayne Rooney en þeir hafa allir skorað 14 mörk. Liðin hafa mæst þrisvar í úrvalsdeildinni og útiliðið hefur unnið í öll skiptin.

Wolves - Wigan

Liðin eru jöfn með 19 stig en Wolves er búið að spila leik meira. Wolves hefur skorað fæst mörk í deildinni en Wigan hefur hinsvegar fengið á sig flest mörk. Wolves vann fyrri leikinn 1-0.

Everton - Man City (17.30)

Manchester City getur unnið fimmta leikinn í röð undir stjórn Ítalans Roberto Mancini. Manchester City vann 2-1 sigur á Goodison Park á síðasta tímabili sem var þá fyrsti sigur liðsins þar síðan í október 1992. Carlos Tevez hefur skorað 10 mörk í síðustu 7 leikjum sínum. Everton hefur ekki tapað síðan í lok nóvember en 5 af 6 deildarleikjum liðsins frá þeim tíma hafa endað með jafntefli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×