Lífið

Fengu milljón í styrk til að kynna veggjalist

Loki og Kristín eru bjartsýn á að afmá fordóma almennings í garð veggjalistarinnar.
Loki og Kristín eru bjartsýn á að afmá fordóma almennings í garð veggjalistarinnar. Mynd/Arnþór.

Hópur ungra veggjalistmanna fékk á dögunum um milljón króna styrk frá samtökunum Evrópa unga fólksins. Styrkinn fengu þau fyrir að fara í hringferð um landið og kynna veggjalistina.

„Evrópa unga fólksins hélt kynningu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um styrkinn og við ákváðum að sækja um," segir Kristín Þorláksdóttir en hún er einmitt dóttir listamannsins Tolla og því ekki langt að sækja listahæfileikana. Það kom þeim ekki á óvart að fá styrkinn enda lögðu þau mikla vinnu í umsóknina.

Kristín og Loki, sem einnig er hluti af þessum sjö manna hópi, eru bjartsýn á að þau nái að afmá fordóma almennings í garð veggjalistarinnar með verkefni sínu.

„Veggjalist og krot er ekki það sama. Þetta eru ekki skemmdarverk og við þurfum að líða fyrir að það eru nokkrir svartir sauðir að krota á veggi sem gefa okkur mjög vont orðspor," segir Loki en þau fara ekki fögrum orðum um hreinsunarátak borgarinnar á síðustu árum þar sem málað hefur verið yfir listaverkin.

„Við teljum að það sé mikill munur á venjulegum gráum húsvegg og húsvegg með listaverki á. Það er einfaldlega mikið fallegra að horfa á listaverk." Hópurinn hefur gefið út tímaritið Suburbistan þar sem birtar eru myndir af veggjalistaverkum frá þeim.

„Þetta eru allt veggjalistaverk sem hefur verið málað yfir á síðustu þremur árum og hefur því ákveðið sögulegt gildi," segir Loki en hópurinn hefur nú þegar sent öllum borgarfulltrúum nýju borgarstjórnarinnar bréf til að kynna málstað veggjalistarinnar.

Hringferðin hefst um miðjan júlí og mun byrja á Borgarnesi.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.