Lífið

Íslendingar hjálpuðu keppendum í Amazing Race

Boði Logason skrifar
Arnar Freyr áður en þeir frændur slógust í för með keppendunum og hjálpuðu þeim.
Arnar Freyr áður en þeir frændur slógust í för með keppendunum og hjálpuðu þeim. Mynd/AFM

„Þetta var magnað, við vorum bara að skoða knattspyrnuleikvanginn frá HM 2002 þegar við tökum allt í einu eftir þessu liði," segir Arnar Freyr Magnússon sem fór til Suður-Kóreu ásamt frænda sínum Heimi Hannessyni í nokkra daga fyrir stuttu.

Þeir frændur ákváðu með litlum fyrirvara að fara skoða landið og lentu heldur betur í skemmtilegri reynslu. Þeir hittu keppendur í bandaríska raunveruleikaþættinum Amazing Race sem voru þar í vandræðum í neðanjarðarlest í borginni Seoul.



Saman í neðanjarðarlest


Arnar Freyr segir að hann hafi kveikt á perunni strax að um Amazing Race hafi verið að ræða en hafi verið fljótur að taka upp myndavél eins og sönnum túrista sæmir.

"Við höldum síðan áfram okkar striki, og tökum fljótlega eftir því að þeir eru að taka sömu lest og við. Fyrir utan lestarstoppistöðina sjáum við að þeir eru í einhverjum vandræðum og eru að reyna spyrja heimamenn hvaða lest þeir eigi að taka, þeir skilja nú ekki mikið í ensku svo allt í einu snúa þeir sér að okkur og spyrja okkur hvort við þekkjum neðanjarðarlestarkerfið. Við vorum búnir að vera þarna í nokkra daga svo við vissum eitthvað smá og þá kom í ljós að þeir voru að fara á svipaðan stað og við. Við sögðum þeim bara að elta okkur í gegnum lestarkerfið og við myndum svo segja þeim hvenær þeir ættu að fara út."

Keppendurnir að leita ráða hjá heimamönnumMYND/AFM

Ekkert „fake"

Þeir frændur upplifðu alla stemminguna í kringum þættina og segir Arnar Freyr að þetta hafi ekki verið neitt "fake". "Nei alls ekki, þarna voru myndavélar og hljóðmenn sem fylgdu þeim hvert sem er. Þeir hjálpuðum þeim ekkert, þeir voru algjörlega upp á sig komnir. Það var magnað að fylgjast með þessu og tilviljun að hitta þá."

Hann segir heimamenn ekki hafa áttað sig á því hversu stór þátturinn er eða hversu mikla athygli svona þáttur fær út um allan heim. "Ég efast um það, það voru allavega ekki margir að horfa á þá eða sýna þeim mikla athygli."

Bíður spenntur eftir þættinum

Aðspurður hvort að keppendurnir hafi ekki borgað þeim eitthvað fyrir aðstoðina segir hann svo ekki vera. "Nei, mér skilst að þeir hafi ekki mikinn pening. Það var gaman að geta hjálpað þeim."

Arnar Freyr segist bíða spenntur eftir því þegar að þátturinn verður sýndur, sem er að öllum líkindum í haust. "Já ég bíð alveg gríðarlega spenntur eftir þessu í haust, ég get ekki beðið," segir Arnar hlæjandi.

Í rúllustiga á lestarstöðinniMYND/AFM

Klikkaður aðdáandi

Þegar heim var komið fékk Arnar heldur furðuleg skilaboð frá æstum aðdáenda þáttanna á Facebook.

"Þetta var frekar "spúkí". Þegar ég kom heim núna til Íslands hafði einhver aðdáandi þáttanna sent mér skilaboð. Ég skil ekki hvernig hann vissi að ég var að hjálpa keppendunum, það er mér algjörlega hulin ráðgáta. En þar bað hann mig um að útskýra fyrir sér hvernig þetta var, og hver væri að vinna og eitthvað. Ég hef nú alveg horft á þessa þætti með öðru auganu, en þetta sannaði fyrir mér hvað er til mikið af skrítnu fólki," segir Arnar Freyr að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.