Fótbolti

Wenger: Barcelona vildi ekki mæta okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Stórleikur sextán liða úrslita Meistaradeildar Evrópu er tvímælalaust viðureign Barcelona og Arsenal. Liðin mættust einnig í keppninni í fyrra og þá sló Barcelona sveina Wenger úr keppni, 6-3 samanlagt.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, viðurkennur fúslega að liðsins bíði afar erfitt verkefni en hann hefur samt mikla trú á því að sitt lið geti komið á óvart.

"Mín viðbrögð eru einföld. Þetta er erfitt verkefni en mögulegt að ná árangri. Ég vildi í raun ekki fá neitt sérstakt lið. Kannski hefði mátt segja að Schalke hefði verið viðráðanlegri andstæðingur. Kosturinn er aftur á móti sá að við verðum á tánum og klárir í slaginn," sagði Wenger en hyggur hann á hefndir?

"Ég er ekkert að hugsa um hefnd. Ég vil bara komast áfram í keppninni og vinna Barcelona. Það verður vissulega erfitt en er hægt. Barcelona er það lið sem er líklegast til að vinna keppnina en það má ekki gleyma því að Barcelona vildi ekki mæta okkur því við munum veita þeim verðuga keppni.

"Ég tel okkur vera betra lið en í fyrra og nú fáum við gott tækifæri til þess að sanna það," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×