Innlent

Flutti inn í fellihýsi ókunnugrar fjölskyldu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fellihýsi af þeirri tegund sem maðurinn tók sér bólfestu í.
Fellihýsi af þeirri tegund sem maðurinn tók sér bólfestu í.
Húsfreyju í Keflavík brá í brún í morgun þegar að hún fann mann af erlendum uppruna sofandi í fellihýsi sínu utan við við íbúðarhús sitt. Útlendingurinn baðst afsökunar og skýrði framferði sitt á því að hann væri peningalaus. Síðan lagðist hann á hliðina og hugðist sofa áfram, eftir því sem fram kemur á fréttavef Víkurfrétta.

Það vakti athygli eiganda fellihýsisins að hann var án farangurs og yfirhafnar, sokkalaus en með aukapar af skóm. Eigandinn, sem ekki hefur viljað láta nafns síns getið, þurfti af ýta á eftir því að maðurinn færi úr fellihýsinu.

Víkurfréttir hafa það eftir húsfreyjunni á heimilinu að hugsanlega hafi óboðni næturgesturinn verið fleiri en eina nótt í fellihýsinu. Hún hafi komið inn í vagninn fyrir tveimur dögum og þá hafi verið brauðpoki á borði. Hún hafi þá talið að eiginmaðurinn hafi gleymt pokanum á borðinu. Í morgun voru auk brauðpokans kominn annar poki undan brauði úr Bónus, safaferna, gosdósir og niðursuðudós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×