Formúla 1

Alonso: Markmiðið að komast á verðlaunapall

Fernando Alonso fagnaði sigri í síðustu keppni sem var í Suður Kóreu.
Fernando Alonso fagnaði sigri í síðustu keppni sem var í Suður Kóreu. Mynd: Getty Images/Ker Robertson
Fernando Alonso er efstur í stigamóti Formúlu 1 ökumanna og getur tryggst sér meistaratitilinn í Brasilíu um helgina ef vel gengur. Hann telur þó líklegra að úrslitin ráðist ekki fyrr en í lokamótinu í Abu Dhabi um aðra helgi. Hann hefur haldið þessu fram í langan tíma og afstaða hans hefur ekkert breyst, þó hann sé nú 11 stigum a undan Mark Webber í stigamótinu og í efsta sæti stigamótsins. "Það hefur ekkert breyst. Við erum einhverjum stigum á undan, en við sáum skýrt dæmi um hvað hlutirnir geta snúist hratt í Kóreu ef menn falla úr leik. Við munum ekki breyta áætlun okkar í næstu tveimur mótunum. Þolgæði verða í fyrirrúmi og markmiðið að komast á verðlaunapall í báðum mótum. Við munum sjá hvort það dugir til í Abu Dhabi", sagði Alonso í samtali við fréttmenn á Interlagos brautinni Í Brasilíu í dag samkvæmt frétt á autosport.com. Alonso segir að mótið um helgina sé mikilvægt, en líka að 4-5 síðustu mót hafi verið það. Alonso segir liðið hafa verið mjög einbeitt í undanförnum mótum og gætt að því að gera ekki mistök, til að missa ekki af möguleikum í titilslagnum. Alonso hefur unnið 3 af 4 síðustu mótum, en hefur aldrei fagnað sigri í Brasilíu. "Þetta verður ekki auðvelt viðfangsefni. Keppinautarnir eru mjög öflugir og Red Bull og McLaren liðin munu berjast til loka. Red Bull liðið er líklegast á öllum brautum og hefur verið öflugt á tímabilinu og á tveimur fremstu rásstöðunum í 90% tilfella." "Á slæmri helgi er lítið mál að enda í fimmta eða sjötta sæti, af því það eru 4-5 öflugir bílar sem eru að berjast á toppnum. Við verðum bara að hámarka getu okkar og sjá til. Við virðum keppinauta okkar", sagði Alonso. Hann virtist ekkert hafa á móti því að liðsfélaginn Felipe Massa ynni á heimavelli. "Felipe er sterkur hérna að öllu jöfnu. Það væri best fyrir okkur ef Felipe ynni, því þá hirðir hann 25 stigin, en 18 stig eru fyrir annað sætið. Það er minni munur á næstu sætum á eftir, sem gæti hjálpað mér að halda stöðunni. Áhyggjuefni mitt er ef keppinautur um titilinn nær í stigin 25. Best væri ef Felipe ynni síðustu tvö mótin." Alonso sagði mikilvægt að komast í endamark í mótunum tveimur, og helst á verðlaunapallinum og á undan Red Bull mönnum. Það væri lykill að meistaratitilinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×