Viðskipti erlent

Ferrari bílar seljast sem aldrei fyrr í Noregi

Sala á Ferrari bílum í Noregi hefur aldrei verið meiri en í fyrra og það sem af er þessu ári.

Autostrada Sport er með umboðið fyrir Ferrari bíla í Noregi og samkvæmt upplýsingum frá umboðinu voru 53 Ferrari bílar seldir í Noregi á síðasta ári eða rúmlega einn á viku að meðaltali.

Ferrari er einn dýrasti fjöldaframleiddi bíll í heiminum og kostar stykkið af honum um 60 milljónir króna. Þetta þýðir að Ferrari bílar hafa selst fyrir rúmlega þrjá milljarða króna í Noregi í fyrra.

Í umfjöllun vefsíðunnar e24 um málið segir að þetta sé sölumet. Samkvæmt upplýsingum frá Autostrada Sport eru allar líkur á að sölumetið verði slegið í ár en þegar er búið að selja yfir 20 Ferrari það sem af er árinu.

Salan á Ferrari bílum í Noregi sýnir enn og aftur að landið hefur sloppið betur en flest önnur lönd út úr kreppunni. Það er hinsvegar spurning um ánægjuna sem eigendur þessara bíla hafa af þeim í Noregi þar sem óvíða eru meiri hraðatakmarkanir á vegum en þar í landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×