Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, hefur verið færður fyrir dómara vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar. Dómarinn tók sólarhringsfrest í gær til þess að ákveða hvort fallist yrði á kröfu sérstaks saksóknara um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má.
Þegar er búið að færa Magnús Guðmundsson, bankastjóra Haviland bankans í Lúxemborg fyrir dómara. Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir honum en ekki er ljóst hversu langt gæsluvarðhald sérstakur saksóknari fer fram á.
Samkvæmt fréttavef RÚV þá situr stjórn Haviland bankans á fundi og þar er meðal annars fjallað um málefni Magnúsar. Bankinn mun senda frá sér tilkynningu síðar í dag.
Hreiðar svaraði ekki spurningum fjölmiðla þegar hann kom niður í dóm. Það gerði Magnús ekki heldur.