Erlent

Rússar vísa gagnrýni á bug

Olíujöfurinn fyrrverandi Mikhail Khodorkovsky hefur setið í fangelsi frá árinu 2003.
Fréttablaðið/AP
Olíujöfurinn fyrrverandi Mikhail Khodorkovsky hefur setið í fangelsi frá árinu 2003. Fréttablaðið/AP

Rússar svara þeim fullum hálsi sem hafa gagnrýnt málareksturinn gegn olíujöfrinum Mikhail Khodorkovsky, sem var fundinn sekur í vikunni um undanskot og peningaþvætti.

Meðal annars sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að dómurinn vekti upp spurningar um pólitíska íhlutun í málinu, en Khodorkovsky hafði staðið uppi í hárinu á Vladimír Pútín, þáverandi forseta landsins.

Segir í tilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu að slíkar ásakanir séu tilhæfulausar með öllu og beinir ráðuneytið þeim tilmælum til annarra ríkja að skipta sér ekki af innanríkismálum Rússa.

Þar segir aukinheldur að málareksturinn gegn Khodorkovsky snúist um stórfelld skattsvik og peningaþvætti, og í Bandaríkjunum væru menn jafnvel dæmdir í lífstíðar­fangelsi fyrir slíkt. Þessi yfirlýsing þykir lögmönnum Khodorkovsky varpa ljósi á vanþekkingu yfirvalda því þetta mál snerist ekki um skattsvik.

Þrátt fyrir þíðu í samskiptum Rússa og Vesturveldanna að undanförnu sýnir þessi dómur að mati fréttaskýrenda að lítið hafi í raun breyst í innanríkismálum Rússlands síðustu ár. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×