Handbolti

Ísland er tveimur mörkum yfir í hálfleik á móti Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson er búinn að skora 4 mörk í fyrri hálfleik.
Róbert Gunnarsson er búinn að skora 4 mörk í fyrri hálfleik. Mynd/Anton

Íslenska karlalandsliðið er tveimur mörkum yfir á móti Spánverjum, 14-12, í undanúrslitaleik sínum á hraðmótinu í Bercy-höllinni í Frakklandi.

Róbert Gunnarsson hefur skorað 4 mörk í fyrri hálfleik en íslensku strákarnir hafa látið Árpád Sterbik, markvörð Spánverja, verja frá sér ellefu skot í hálfleiknum.

Íslenska liðið tók frumkvæðið í upphafi leiks, komst í 1-0, 2-1 og 4-2 þar sem varnarþrælarnir Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson voru báðir komnir á blað.

Róbert Gunnarsson skoraði þrjú íslensk mörk í röð á þriggja mínútna kafla og kom íslenska liðinu í 8-5 þegar hálfleikurinn var hálfnaður.

Spánverjar skoruðu næstu tvö mörk, íslenska liðið kom muninum strax aftur upp í tvö mörk en aftur náði spænska liðið að minnka muninn niður í eitt mark. 10-9.

Spánverjar jöfnuðu leikinn síðan í bæði 11-11 og 12-12 áður en Guðmundur Guðmundsson tók leikhlé þegar 3 mínútur og 19 sekúndur voru eftir af hálfleiknum.

Ólafur Stefánsson skoraði næsta mark og fiskaði síðan víti sem Snorri Steinn skoraði úr og kom Íslandi í 14-12 fyrir hálfleik.

Mörk Íslenska liðsins í fyrri hálfleik:

Róbert Gunnarsson 4

Alexander Petersson 2

Ólafur Stefánsson 2

Sverre Jakobsson 2

Snorri Steinn Guðjónsson 2/2

Ingimundur Ingimundarson 1

Guðjón Valur Sigurðsson 1

Björgvin Páll Gústavsson hefur varið fimm skot.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×