Erlent

Þúsundir manna flýja

merapi í indónesíu Sjálfboðaliði beinir íbúum leið frá rótum eldfjallsins. 
fréttablaðið/ap
merapi í indónesíu Sjálfboðaliði beinir íbúum leið frá rótum eldfjallsins. fréttablaðið/ap

Þúsundir flúðu heimili sín undan rótum eldfjallsins Merapi í Indónesíu í gær. Opinber viðvörun var gefin út um að eldfjallið gæti gosið aftur hvenær sem væri og fjölmenntu íbúar inn í rútur, lestir og bíla til að flýja í kjölfarið.

Fjöldaútför var haldin á sunnudag fyrir þá 141 sem höfðu látið lífið í eldgosinu á síðustu tveimur vikum, en þetta er mannskæðasta gos sem hefur orðið í fjallinu á síðustu 80 árum.

Nálægasti flugvöllur á svæðinu hefur verið lokaður vegna ösku síðustu daga. Hefur því umferð til höfuðborgarinnar Jakarta tvöfaldast og er orðin mjög þung. Mörg flugfélög hafa þó hætt við flug til höfuðborgarinnar vegna öskufalls.

Merapi er eitt af virkustu eldfjöllum heims og hafa gosin á síðustu öld orðið meira en 1.400 manns að bana. Á föstudaginn síðasta var tala látinna orðin sú hæsta síðan 1930.

Samkvæmt íslömskum trúarbrögðum skal grafa hina látnu eins fljótt og auðið er og fengu ættingjar fórnarlambanna þrjá daga til að bera kennsl á ástvini sína. Var líkunum síðan komið fyrir í fjöldagröf, sem er algengt í Indónesíu þegar hörmungar sem þessar dynja yfir. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×