Formúla 1

Alonso vann eftir stormasama keppni

Fernando Alonso á Ferrari varð á undan Lewis Hamilton á McLaren í Suður Kóreu í dag.
Fernando Alonso á Ferrari varð á undan Lewis Hamilton á McLaren í Suður Kóreu í dag. Mynd: Getty Images/Clive Mason

Fernando Alonso á Ferrari vann sigur í fyrsta Formúlu 1 mótinu í Suður Kóreu í nótt, eftir að þremur af fimm keppinautum hans um meistaratitilinn í Formúlu 1 fataðist flugið.  Lewis Hamilton á McLaren varð annar og Felipe Massa á Ferrari þriðji í keppninni. Bæði Mark Webber og Sebastian Vettel á Red Bull féllu úr leik og Jenson Button komst ekki í stigasæti. Þessir fimm eiga þó allir enn möguleika á meistaratitilinum.

Veðurguðirnir settu svip sinn á keppnina, en ekki var hægt að hefja hana á réttum tíma, þar sem vatnsflaumurinn á brautinni var of mikill. Raunverulegur kappakstur hófst ekki fyrr en 1,45 mínútur eftir áætlaða fyrstu ræsingu samkvæmt frétt á autosport.com. Þá hafði verið reynt að ræsa keppnina fyrir aftan öryggisbílinn og eknir voru fjórir hringir. Þá kom  hátt í klukkutíma töf og svo óku keppendur 13 hringi fyrir aftan öryggisbílinn eftir endurræsingu.

Þegar keppnin komst loks í gang að einhverju marki náði Vettel forystu, en félagi hans Webber brást bogalistinn og snerist í brautinni og rann í veg fyrir Nico Rosberg á Mercedes. Báðir féllu úr leik vegna skemmda á bílunum, en Webber var í stigaforystu fyrir mótið. Enn þurfti að endurræsa keppnina, en nokkru síðar klessti Sebastian Buemi Torro Rosso bíl sinn á Timo Glock á Virgin og enn þurfti að kalla öryggisbílinn út og síðan endurræsa keppnina.

Vettel var í forystu eftir endurræsingu og Alonso hafði fallið í þriðja sætið á eftir Hamilton, eftir að mistókst að festa framhjól nógu hratt í þjónustuhléi á meðan öryggisbíllinn var enn í brautinni. En Hamilton missti bílinn líttilega út fyrir braut í fyrstu beygju eftir endurræsingu og Alonso náði framúr aftur og í annað sætið.

Vettel var í góðum málum þar til að vélin bílaði í bíl hans og hann varð að hætta keppni, á meðan Alonso náði forystu, sem hann hélt til loka á undan Hamilton. Button gekk illa í keppninni og fékk engin stig út úr mótinu.

Með fimmta sigrinum í ár náði Alonso forystu í stigamóti ökumanna þegar tveimur mótum er ólokið. Hann er með 231 stig, Webber er með 220, Hamilton 210 og Vettel 206. Button er með 189 og á tölfræðilega möguleika á sigri, en staða hans er heldur vonlítil. Fimmtíu stig eru í pottinum fyrir sigur í þeim mótum sem eftir eru.

Lokastaðan í Suður Kóreu

 1.  Alonso        Ferrari                    2:48:20.810

 2.  Hamilton      McLaren-Mercedes           +    14.999

 3.  Massa         Ferrari                    +    30.868

 4.  Schumacher    Mercedes                   +    39.688

 5.  Kubica        Renault                    +    47.734

 6.  Liuzzi        Force India-Mercedes       +    53.571

 7.  Barrichello   Williams-Cosworth          +  1:09.257

 8.  Kobayashi     Sauber-Ferrari             +  1:17.889

 9.  Heidfeld      Sauber-Ferrari             +  1:20.107

10.  Hulkenberg    Williams-Cosworth          +  1:20.851

Stigastaðan

 1.  Alonso       231        1.  Red Bull-Renault          426

 2.  Webber       220        2.  McLaren-Mercedes          399

 3.  Hamilton     210        3.  Ferrari                   374

 4.  Vettel       206        4.  Mercedes                  188

 5.  Button       189        5.  Renault                   143

 6.  Massa        143        6.  Force India-Mercedes       68

 7.  Kubica       124        7.  Williams-Cosworth          65

 8.  Rosberg      122        8.  Sauber-Ferrari             43

 9.  Schumacher    66        9.  Toro Rosso-Ferrari         11




Fleiri fréttir

Sjá meira


×