Viðskipti innlent

Icesave-drög: 0-50 milljarðar á ríkið

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bandaríski lögmaðurinn Lee Buchheit, formaður íslensku samninganefndarinnar, sést hér á fundi með formönnum flokkanna í febrúar á þessu ári.
Bandaríski lögmaðurinn Lee Buchheit, formaður íslensku samninganefndarinnar, sést hér á fundi með formönnum flokkanna í febrúar á þessu ári. Mynd/GVA

Drög að meginatriðum nýs Icesave-samkomulags gera ráð fyrir að kostnaður sem lendi á ríkissjóði verði á bilinu 0-50 milljarðar króna. Drögin að helstu atriðum sem náðst hefur samkomulag um, eins og vaxtaprósentu, voru kynnt í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og hafa verið kynnt forystumönnum Samtaka atvinnulífsins. Samninganefndir eru enn að störfum.

Drög liggja fyrir um öll helstu atriði að nýju samkomualagi í Icesave-deilunni, eins og fréttastofa greindi frá um helgina. Samkvæmt þessum drögum verða meðaltalsvextir í samningunum 2,78 prósent, en vextirnir voru 5,55 prósent í samningum Svavars-nefndarinnar sem þjóðin felldi hinn 6. mars síðastliðinn. í nokkuð breyttri mynd, með 98 prósent greiddra atkvæða. Þótt drög að nýju samkomulagi liggi fyrir í meginatriðum eru samninganefndirnar enn að störfum og síðast um helgina voru haldnir fundir. Bandaríski lögmaðurinn Lee Buchheit veitir íslensku nefndinni forystu.

Samninganefndirnar vinna þannig að fyrst eru kláruð atriði sem þær eru sammála um en samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru mjög fá atriði á listanum sem enn hefur ekki náðst samkomulag um milli nefndanna. Er þar um að ræða tæknilegar útfærslur og atriði sem lúta að ýmsum kostnaði. Eins og drögin hafa verið kynnt gerir nýtt samkomulag ráð fyrir að kostnaður sem lendir á ríkissjóði verði á bilinu 0-50 milljarðar króna. Munar þar mestu um umtalsvert lægri vexti í drögum að nýjum samningum, styrkingu krónunnar og væntingar um betri endurheimtur í þrotabú Landsbankans.



Kynnt fyrir stjórn Viðskiptaráðs


Fyrir tveimur vikum síðan voru helstu meginatriði þess sem náðst hefur sátt um, þar á meðal vaxtaprósentan, kynnt fyrir stjórn Viðskiptaráðs Íslands og var það ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem annaðist kynninguna. Þá hafa drögin verði kynnt forystumönnum Samtaka atvinnulífsins.

Þær upplýsingar fengust hjá upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins í morgun að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, væri ekki tilbúinn að tjá sig um drögin að öðru leyti en því að góður gangur væri í viðræðum við Breta og Hollendinga og að vonir stæðu til að samkomulag yrði kynnt fljótlega.

Frestur Íslands til að svara áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, vegna þess álits stofnunarinnar að íslenska ríkið beri ábyrgð á lágmarkstryggingu breskra og hollenskra sparifjáreigenda á Icesave-reikningum Landsbankans, rennur út á morgun. Svar til stofnunarinnar er tilbúið í öllum meginatriðum.


Tengdar fréttir

Drög að Icesave samkomulagi kynnt

Drög að nýju Icesave samkomulagi hafa verið kynnt þingflokkum stjórnarandstöðunnar. Samninganefndir Íslands, Bretlands og Hollands stefna að því að ljúka við gerð samnings sem allra fyrst.

Mikilvægt að Icesave samningar takist fljótlega

Forstjóri Eftirlitsstofnunar EFTA segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki óskað eftir frekari frestun á að skila svari sínu vegna Icesave. Hann segir mikilvægt að samningar takist við Breta og Hollendinga fljótlega. Ef stjórnvöld nái hins vegar að sannfæra stofnunina um að mat hennar á greiðsluskyldu ríkisins sé rangt verði málið látið niður falla.

Icesave-frétt vekur athygli

Frétt Stöðvar 2 um að Icesave samningur væri hugsanlega í sjónmáli, og að drög að honum hefðu verið kynnt stjórnarandstöðunni, hefur vakið athygli víða um heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×