Viðskipti innlent

Fjöldi ríkisstofnanna hundsaði tilmæli um launalækkun

Nær fjórar af hverjum tíu ríkisstofnunum hundsuðu tilmæli ríkisstjórnarinnar sumarið 2009 um að lækka laun þeirra starfsmanna sinna sem voru með yfir 400 þúsund kr. í mánaðarlaun.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkiendurskoðunnar um ríkisreikning fyrir árið 2009. Hinn 14. ágúst 2009 gaf ríkisstjórnin út tilmæli til ráðuneyta og stofnana um að lækka launa umfram 400 þús.kr. á mánuði. Stefnt var að því að ná fram 3-10% lækkun með fækkun svonefndra eininga og yfirvinnustunda.

Fjármálaráðuneytið átti í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti að hafa forgöngu um að útfæra leiðir til að ná þessu markmiði. Könnun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að fjölmargar stofnanir urðu ekki við tilmælum ríkisstjórnarinnar.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti stóðu að því að kynna þau og leiðbeina um framkvæmd þeirra. Nauðsynlegt er að tilmæli til stjórnenda stofnana séu skýr og valdi ekki misskilningi eða misræmi í framkvæmd.

Gerð var könnun meðal ráðuneyta og stofnana og spurt hvernig tilmælin hefðu verið framkvæmd á árunum 2009 og 2010. Könnunin náði til samtals 197 aðila.

Í ljós kom að 61% af þeim aðilum sem svöruðu könnuninni höfðu farið að tilmælunum á árinu 2009 en 39% höfðu ekki gert það. Mismunandi var til hve margra starfsmanna breytingarnar náðu.

Hjá nokkrum svarendum voru einungis lækkuð laun forstöðumanns í samræmi við úrskurð kjararáðs. Hjá mörgum þeirra svarenda sem ekki höfðu lækkað laun fengu starfsmenn ekki greitt fyrir ómælda fasta yfirvinnu.

Hjá 47% svarenda stendur til að lækka laun á árinu 2010 í samræmi við tilmælin. Hjá öllum aðalskrifstofum ráðuneytanna voru heildarlaun umfram 400 þúsund kr. á mánuði lækkuð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×