Lífið

Kínverjar í stól forsetans á Bessastöðum

Þessi ágæti blaðamaður tók sig vel út í skrifborðsstól forsetans og virtist una nokkuð glaður við sitt.
Þessi ágæti blaðamaður tók sig vel út í skrifborðsstól forsetans og virtist una nokkuð glaður við sitt. Fréttablaðið/GVA
Yfir þrjátíu blaðamenn fylgja He Guoqiang, flokksritara í stjórnmálanefnd miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins, eftir en hann fer fyrir sendinefnd sem stödd er hér á landi. Í henni eru fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, Útflutnings- og innflutningsbanka Kína og kínverskum orkufyrirtækjum.

He Guoqiang og hans menn snæddu hádegisverð með Ólafi Ragnari Grímssyni í gær á Bessastöðum en mikil öryggisgæsla er í kringum heimsóknina og mörgum vegfarendum brá hreinlega í brún þegar bílalestin með sendinefndinni keyrði sem leið lá út á Álftanes með blikkandi ljós í lögreglufylgd.

Blaðamennirnir fengu að skoða sig um á skrifstofu forsetans og stóðust ekki mátið þegar þeir sáu skrifborðsstól Ólafs. Þeir mátuðu sig við stólinn og létu samstarfsfélaga sína mynda sig með fjölda mynda af tignargestum sem sótt hafa Bessastaði heim á undanförnum árum.

Kínverjarnir voru þó ekki að brjóta neitt blað í sögunni því hljómsveitin Trabant lét mynda sig inni á sömu skrifstofu fyrir allnokkrum árum fyrir plötuna sína Trabant á Bessastöðum. Þá sat Ólafur reyndar sjálfur í skrifborðsstólnum en meðlimir sveitarinnar fyrir aftan hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.