Handbolti

Snorri: Þurfum að hafa fyrir hlutunum

Smári Jökull Jónsson í Malmö Arena skrifar
Snorri Steinn átti magnaðan leik í dag.
Snorri Steinn átti magnaðan leik í dag.

Snorri Steinn Guðjónsson spilaði vel gegn Norðmönnum í kvöld eftir slakan leik gegn Svíum í gær og í síðustu leikjum. Hann sýndi svo um munaði hvað hann getur og er vonandi að koma upp á besta tíma.

„Við gerðum margt mun betur en gegn Svíum í gær. Það var meiri grimmd, meiri ákveðni, meiri stemmning og meiri barátta í liðinu en í síðustu leikjum. Vantaði eiginlega þessa geðveiki sem einkennir okkur og við þurfum á að halda. Við jukum hraðann einnig í sókninni og þá gengur betur.

Við þurfum að hafa mikið fyrir öllu, sama hvað síðustu stórmót segja, ef við erum ekki á tánum og gerum þetta á fullu þá erum við bara lélegir. Það er stutt í Heimsmeistaramótið, þetta var undirbúningur fyrir það og við þurfum að nýta alla leiki. Við vorum fúlir með leikinn gegn Svíum og við fórum vel yfir þann leik dag. Gummi hélt okkur á myndbandsfundi í einn og hálfan tíma. Það var því gott að fá góðan sigur," sagði Snorri

Heimsmeistaramótið hefst í Svíþjóð eftir rúman mánuð og kærkomið að fá leiki gegn jafn sterkum liðum og Svíum og Norðmönnum áður en það hefst.

„Ef þú hefðir spurt mig eftir Svíaleikinn hvort við værum á góðu róli fyrir Heimsmeistaramótið hefði ég sagt að svo væri alls ekki. Í dag líður manni aðeins betur. Það er hægt að taka fullt jákvætt úr þessum leik á meðan leikurinn í gær var hræðilegur. Þessi tveir leikir sýndu okkur að við þurfum að hafa hrikalega mikið fyrir þessu og vera á tánum. Þannig er það bara."

Nokkra leikmenn vantaði í íslenska liðið á þessu móti en Snorri var ánægður með þá leikmenn sem komu inn í staðinn.

„Sveinbjörn kom sterkur inn í þessa báða leiki og er mikið efni. Auðvitað vantar Hreiðar og Bjögga en það er langt í mót. Ef við lendum í meiðslum þannig að það er aldrei slæmt að hafa breidd og gott að fá nýja menn sem vilja sýna að þeir eiga heima í liðinu. Oddur var frábær í gær og hefur verið frábær þegar hann er með, Sigurbergur var fínn í gær og svo eigum við nokkra menn inni. Gummi velur auðvitað liðið en á meðan við höfum breidd og samkeppni þá er það af hinu góða," sagði Snorri Steinn Guðjónsson að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×