Skoðun

Óskar Bergsson: Betri samningur fyrir borgina

Óskar Bergsson skrifar
Eftir eins og hálfs árs gott samstarf meiri- og minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem unnið hefur verið eftir þverpólitískri aðgerðaáætlun, er nú kominn glímuskjálfti í mannskapinn og minnihlutinn hefur fundið ágreiningsefnið. Ágreiningurinn fyrir þessar kosningar skal vera með eða á móti golfvelli! Gott og vel, en málið snýst um efndir á samkomulagi milli Golfklúbbs Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar sem rekja má til vorsins 2006 þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáverandi borgarstjóri Samfylkingarinnar, undirritaði skuldbindandi samninga við fjölmörg íþróttafélög upp á 2,2 milljarða króna, þar á meðal um stækkun golfvallar á Korpúlfsstöðum.

Reykjavíkurborg, þ.e. meirihluti hvers tíma, þarf að standa við þær skuldbindingar sem áður hafa verið gerðar í nafni sveitarfélagsins. Í þessu tilviki á ábyrgð Samfylkingar, VG og Framsóknarflokks sem mynduðu Reykjavíkurlistann. Ég undrast þá afstöðu VG og Samfylkingarinnar að vilja ekki bera ábyrgð á samningum sem þeirra eigin stjórnmálaforingjar stóðu að.

Í þessum meirihluta, sem myndaður var í ágúst 2008, hefur mikil vinna farið í að vinda ofan af stórum samningum við íþróttafélög sem gerðir voru á árunum 2006-2007. Það er gert í samvinnu við íþróttafélögin með það að leiðarljósi að standa við fyrri skuldbindingar en draga verulega úr kostnaði. Það er sérkennilegt að á sama borgarstjórnarfundi greiðir minnihlutinn atkvæði með nýju samkomulagi við íþróttafélög eins og Fylki og Fjölni, en á móti samkomulagi við GR. Samningar við þessi félög voru allir samþykktir fyrir kosningar 2006.

Samningurinn nú felur í sér að GR fellur frá fyrri áformum um framkvæmdir upp á 450 m.kr. en byggir upp á fjórum árum fyrir 230 m.kr. eða rúmlega 57 m.kr. á ári. Á móti skilar GR Reykjavíkurborg landi í Staðarhverfi, sem verður til framtíðar verðmætt byggingarland borgarinnar.

Það getur verið mikilvægt að hafa sérstöðu í stjórnmálum þegar kemur að kosningum og það er greinilega það sem Samfylkingin og VG eru að reyna í þessu máli. En að velja mál sem þeirra eigin flokkar bera fulla ábyrgð á og klína því á þá sem sitja uppi með gjörninginn er vægast sagt ófyrirleitið.



Skoðun

Sjá meira


×