Innlent

Rostungur í Flateyjardal

Frá Flateyjardal. Rostungar eru friðaðir. Mynd/www.skarpur.is
Frá Flateyjardal. Rostungar eru friðaðir. Mynd/www.skarpur.is
„Þetta var ógleymanlegt að standa þarna fáeina metra frá þessari gríðarlegu skepnu og mynda hana í krók og kring, vitandi það að ekki mjög margir hafa fengið slíkt tækifæri hérlendis," sagði ljósmyndarinnar Víðir Pétursson sem tók fyrr í dag myndir af rostungi sem flatmagaði í fjörunni í Flateyjardal. Fjallað er um málið á þingeyska fréttamiðlinum Skarpur.is.

Það var Stefán Guðmundsson, hjá Gentle Giants á Húsavík, sem varð var við skepnuna í gær og stóð fyrir leiðangri í morgun til að leita rostunginn uppi og kanna ástand hans. Með í för var meðal annars Vignir Sigurólason, dýralæknir.

„Vel gekk að finna rostunginn sem lá hinn makindalegasti í þangbreiðu í fjörukambinum. Og hann lét aðkomumenn ekkert trufla sig þó þeir stæðu í 2ja metra fjarlægð frá honum. Vignir kannaði ástand skepnunnar og kom ljós að hún var með opið sár á skrokknum, sem Vignir taldi þó ekki alvarlegt," segir á Skarpur.is.

Þar segir ennfremur: „Menn voru undir það búnir að aflífa rostunginn ef hann væri mjög illa farinn, að fengnum nauðsynlegum leyfum, en frá því var horfið, enda þessi dýr alfriðuð og ástand rostungsins það gott að mati dýralæknisins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×