Fótbolti

Framtíð Sneijder í óvissu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wesley Sneijder í leik með Inter.
Wesley Sneijder í leik með Inter. Nordic Photos / AFP
Umboðsmaður Wesley Sneijder hefur greint frá því að framtíð leikmannsins hjá Inter er í óvissu eftir að viðræður hans við félagið fóru út um þúfur.

Sneijder hefur slegið í gegn hjá Inter síðan hann gekk til liðs við félagið frá Real Madrid fyrir ári síðan. Hann varð þrefaldur meistari með Inter á síðasta tímabili og komst í úrslitaleik HM með hollenska landsliðinu.

Hann greindi frá því fyrr í mánuðinum að hann vonaðist til að geta skrifað fljótlega undir nýjan samning við Inter sem myndi gilda til ársins 2015.

En nú segir umboðsmaður Sneijder, Sören Lerby, að Inter hafi ekki staðið við gefin loforð.

„Fjárhagslega hlið samningsins hefur ekki gengið upp. Viðræðum hefur verið hætt og þær munu ekki hefjast á ný nema að Inter sýni einhvern sveigjanleika."

„Mörg félög í Evrópu höfðu samband við Wesley eftir HM í sumar en hann var mjög ánægður hjá Inter og gat ekki ímyndað sér að fara frá félaginu eftir aðeins eitt ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×