Fótbolti

Cesc Fabregas: Skólastráka-mörkin voru okkur dýrkeypt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas svekkir sig í leiknum í gær.
Cesc Fabregas svekkir sig í leiknum í gær. Mynd/AFP
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, var allt annað en sáttur með mörkin sem liðið fékk á sig í 1-2 tapi fyrir Porto í gær í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Lukasz Fabianski missti fyrst inn lausa fyrirgjöf Silvestre Varela og pólski markvörðurinn tók síðan upp sendingu Sol Campbell aftur til sín og fékk dæma á sig óbeina aukaspyrnu.

Porto-menn voru fljótir að hugsa, tóku óbeinu aukaspyrnuna strax og skoruðu sigurmarkið. Arsene Wenger taldi markið vera ólöglegt en fyrirliðinn var ekki alveg á sama máli.

„Ég hef enga hugmynd um hvort að þetta hafi verið löglegt mark. Ég hefði örugglega reynt að gera það sama sjálfur. Þetta var skólastráka-mark og það er lítið hægt að kvarta yfir þessu. Skólastráka-mörkin voru okkur dýrkeypt í þessum leik," sagði Cesc Fabregas.

„Við gáfum eftir þegar þeir komust aftur yfir. Við erum kannski ekki ennþá nógu sterkir sem lið til þess að ná að rífa okkur upp eftir að við fáum á okkur mark," sagði Fabregas og bætti við:

„Fram að sigurmarkinu þeirra þá fannst mér við vera að spila mjög vel," sagði Fabregas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×