Viðskipti erlent

Frímerkjaörk kemur kvikmyndagyðju aftur í sviðsljósið

Kvikmyndagyðjan Audrey Hepburn er aftur komin í sviðsljós fjölmiðla, nær tveimur áratugum eftir andlát sitt.

Frímerkjaörk með 14 frímerkjum sem fer á uppboð í næstu viku veldur því að margir alþjóðlegir fjölmiðlar eru nú að rifja upp ævintýralega ævi bresku leikkonunnar Audrey Hepburn. Hún var á sínum tíma talin ein fegursta kona heimsins þegar hún var upp á sitt besta á sjötta og sjöunda áratugnum.

Frímerkin sem hér um ræðir lét þýska póstþjónustan prenta í milljóna upplagi árið 2001. Póstinum láðist þó að leita leyfis hjá syni Hepbrun fyrir þessari útgáfu þannig að upplagið var eyðilagt. En þó ekki alveg allt. Frímerkjaörkin sem hér um ræðir var prufa sem þýski pósturinn sendi syninum þegar frímerkin voru prentuð.

Talið er að örkin verði slegin á yfir 500.000 evrur eða hátt í 80 milljónir kr. Þetta verðmat er ekki fjarri lagi því stök frímerki með Audrey Hepburn úr þessari útgáfu hafa verið seld sex sinnum á undanförnum árum. Hæsta verð sem fengist hefur fyrir stakt frímerki er yfir 150.000 dollarar eða um 18 milljónir kr.

Audrey Hepburn var mikill mannvinur og lét verulega til sín taka í ýmiskonar góðgerðastarfsemi þegar hún var sem frægust. Öllum ágóða af sölu frímerkjaarkarinnar verður því skipt á milli UNICEF og Audrey Hepburn Children´s Foundation.

Audrey Hepburn er aðeins ein af þremur leikkonum í heiminum sem unnið hefur Óskarsverðlaunin og Tony verðlaunin á sama árinu. Óskarinn fékk hún árið 1954 fyrir aðalhlutverkið í rómantísku gamanmyndinni Roman Holliday. Þar lék hún á móti annarri Hollywood goðsögn, Gregory Peck.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×