Stjórn NFL-deildarinnar er með til athugunar hegðun leikmanna New York Jets er kvenkynsfréttamaður heimsótti búningsklefa þeirra á dögunum.
Ines Sainz hjá mexíkósku fréttastofunni TV Azteca var mætt til þess að taka viðtal við leikstjórnanda liðsins. Mark Sanchez, en hann er af mexíkóskum uppruna.
Þar sem Sainz stóð inn í klefanum voru leikmenn liðsins með alls konar flaut og köll sem sjónvarpskonunni fannst vera áreitni.
Sainz sagði á Twitter-síðu sinni að henni hefði liðið mjög illa. "Maður finnur vel fyrir því þegar það er verið að stara á mann og tala við á ákveðinn hátt. Mér leið ekki vel en ákvað að hundsa hegðunina," sagði Sainz sem sór einnig að hafa ekki kíkt á neitt en nokkrir leikmanna liðsins voru naktir er hún var þar.
Hún ákvað að kvarta við NFL út af þessari hegðun og það er nú í þeirra höndum að ákveða hvort refsa eigi félaginu út af þessu atviki.
Jason Taylor, leikmaður Jets, var spurður að því hvort þessi hegðun leikmanna liðsins hefði verið óviðeigandi?
"Við látum yfirmenn deildarinnar um að finna út úr því. Ég vil sem minnst tjá mig um málið," sagði Taylor.