Fótbolti

Ítalska pressan: Sigur Inter eins mikið afrek og að lenda á mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Inter fagna einu marka sinna í gær.
Leikmenn Inter fagna einu marka sinna í gær. Mynd/AP
Ítalskir blaðamenn eiga sjaldnast í vandræðum með að finna myndlíkingar sem eru oft út úr þessum heimi. Luigi Garlando, blaðamaður Gazzetta dello Sport, missti sig algjörlega eftir 3-1 sigur Inter á Evrópumeisturum Barcelona í Meistaradeildinni í gær og líkti leikönnum Inter við marsbúa.

„Við erum marsbúar," stóð á forsíðu Gazzetta dello Sport og vísaði þar með í eldri skrif blaðsins um Lionel Messi þar sem blaðið hélt því fram að hann væri ekki af þessum heimi kominn.

„Barack Obama lofaði að maðurinn kæmist til mars innan 30 ára en hann verður þá alltof seinn því Inter komst þangað í gærkvöldi," skrifaði Luigi Garlando og bætti við: „Ef leikmenn Barcelona eru marsbúar þá eiga leikmenn Inter skilið að fá ríkisfang þar líka," skrifaði þessi blaðamaður Gazzetta dello Sport.

„Inter gæti verið yfirspilað í seinni leiknum á Camp Nou, tapað og dottið út úr keppninni en það er ekki hægt að neita því lengur að Inter-liðið er nú á sama stigi og Barcelona. Þrjú mörk, karakterinn og gæði Nerazzurri í þessum leik sýna það að geimurinn skilur ekki lengur þessa tvo heima að," skrifar Luigi Garlando.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×