Innlent

Fjölskyldufólk í áfalli eftir hópslagsmál í Kórahverfinu

Einn mannanna var laminn í höfuðið með öxi.
Einn mannanna var laminn í höfuðið með öxi.

„Það þorir enginn að senda börnin sín út nema þegar maður veit að þessi maður er í varðhaldi," segir sjónarvottur í Kórahverfinu sem varð vitni að blóðugum hópslagsmálum fyrr í dag. Þar börðust sjö menn vopnaðir hnífum, hafnaboltakylfum og exi. Átökin eru talin tengjast fíkniefnaviðskiptum.

Sjálfur segir sjónarvotturinn sem Vísir ræddi við, og vildi ekki láta nafns síns getið vegna þess að hann býr í hverfinu, að einn mannanna hafi verið laminn í höfuðið með öxinni.

Samkvæmt varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru tveir menn fluttir á slysadeild en hvorugur reyndist alvarlega slasaður.

Fjölskyldufólkinu í Kórahverfinu er hinsvegar verulega brugðið eftir atvikið.

„Ég fékk bara áfall þegar ég sá þetta enda eru börnin manns alltaf að leika sér á planinu hér fyrir framan. Það voru sem betur fer engin börn á svæðinu þegar þetta gerðist," segir hann en hann lýsir mönnunum sem útúrdópuðum aumingjum.

Að sögn íbúans þá virðist einn maður, sem býr í hverfinu, vera einhverskonar handrukkari.

„Þetta er bara handrukkari að fela sig í fjölskylduhverfi," fullyrðir íbúinn og lýsir honum sem sterauxa.

Alls voru sjö menn handteknir eftir átökin en þeir hafa allir komið áður við sögu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir eru á þrítugs- fertugs- og fimmtugsaldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×