Innlent

Ungmennum bannað að tjalda á Írskum dögum - aftur

Boði Logason skrifar
Frá Írskum dögum 2007
Frá Írskum dögum 2007 Vísir.

Bæjarráð Akraness hefur nú ákveðið að fara að tilmælum stjórnar Akranesstofu að ungmennum á aldrinum 18-23 ára verður ekki heimilaður aðgangur á tjaldsvæði bæjarins, nema þá sem fjölskyldumeðlimum, foreldrum með börnum eða börnum með foreldrum, þegar bæjarhátíðin Írskir dagar fara fram. Þetta ákvæði var einnig sett árið fyrir tveimur árum eftir mikil slagsmál og drykkju ungmenna árið áður, eða 2007.

Í fyrra ákvað stjórn Akranesstofu að aflétta banninu og leyfa ungmennum að koma á svæðið en samkvæmt Tómasi Guðmundssyni verkefnisstjóra hjá Akranesstofu gekk það ekki nógu vel og því verður þessi leið farin í ár.

Hægt að skoða slagsmál á youtube

Tómas segir að árið 2007 hafi allt farið úr skorðum og allt logað í slagsmálum. „Það var mjög vafasamt ástand, það er hægt að gúgla þetta og skoða á youtube." Það var svo fyrir tveimur árum eða árið 2008 sem bæjaryfirvöld ákváðu að banna ungmennum að koma á svæðið og segir Tómas það hafa heppnast vel. „Þá var allt eins og við kusum að hafa það, mjög fjölskylduvænt á tjaldsvæðinu. Þetta var mikið gagnrýnt og mikil óánægja var með þetta sérstaklega hjá þessum aldri."

Get ekki tekið áhættuna

Í fyrra var svo ákveðið að slaka á þessum reglum og leyfa ungmennum að koma á svæðið. „Ástandið var í járnum og það tókst að halda friðinn með miklum tilkostnaði og mikilli gæslu. Það voru allir sammála um að sá aldurshópur sem fór mest fyrir og var til mestra vandræða var fólk á þessum aldri." Nú hefur því verið ákveðið að banna ungmennum á fyrrgreindum aldri að koma á tjaldsvæðið. „Við getum bara ekki tekið þann séns að það fari allt í háaloft þarna einu sinni enn."

„Þetta er ekki skemmtilegt"

Tómast býst fastlega við einhverri gagnrýni varðandi þetta fyrirkomulag og óánægju meðal unglinga. „En ég hins vegar bið fólk að hafa skilning á því að við höfum ekki peninga til þess að kosta alla gæsluna sem þarf til að hafa tjaldsvæðið alveg opið, þetta hleypur á milljónum." Tómas segir að það sé verið að gefa ákveðin skilaboð með þessu banni og til að mynda muni dagskrá daganna miðast við fjölskyldur. „Við verðum að fara þessa leiðina. Þetta er ekki skemmtilegt, að þurfa að grípa til þessara úrræða," segir Tómas að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×