Lífið

Fyrirsætan Natalia Vodianova í Reykjavík

Rússneska ofurfyrirsætan Natalia Vodianova kíkti í búðir á Laugaveginum í vikunni.
Rússneska ofurfyrirsætan Natalia Vodianova kíkti í búðir á Laugaveginum í vikunni. Fréttablaðið/afp
Rússneska fyrirsætan Natalia Vodianova er stödd á Íslandi. Sést hefur hennar á rölti um miðbæ Reykjavíkurborgar. Hefur hún vakið athygli meðal vegfarenda og búðareiganda á Laugaveginum enda stórglæsileg kona og flestir sem fletta tískublöðum ættu að kannast við andlit hennar. Natalia er ein þekktasta fyrirsæta í heiminum í dag og var númer sjö á lista Forbes yfir ríkustu fyrirsætur í heimi. Hún var einnig kynnir í Eurovision á síðsta ári þegar keppnin var haldin í Moskvu.

Natalia sást á röltinu um miðbæinn í vikunni með dökkhærðum manni en það mun ekki hafa verið eiginmaður hennar. Þau röltu um miðbæinn og komu meðal annars við í skartgripabúðinni OR á Laugaveginum. Heiða starfstúlka í búðinni kannaðist við ofurfyrirsætuna sem skoðaði íslensku gullsmíðina gaumgæfilega en festi ekki kaup á neinu. „Maðurinn sem var með henni hringdi á undan sér og spurði hvort við værum ekki örugglega ennþá á sama stað. Hann hafði komið hérna áður og vildi sýna Nataliu skartgripina," segir Heiða.

Rússneska fyrirsætan er 28 ára og þriggja barna móðir. Hún hefur verið gift breska fasteignaerfingjanum, Justin Trevor Berkeley Portman, síðan árið 2001.

Fréttablaðið grennslaðist fyrir um ferðir ofurfyrirsætunnar á Íslandi og hafði samband við umboðsskrifstofu hennar, Why Not model agency í Mílanó, en þeir sögðust ekki vita neitt um ferðir hennar þessa dagana. Ekki er því vitað hvort um frí eða vinnuferð var að ræða hjá fyrirsætunni, sem hefur verið á forsíðu breska Vogue sjö sinnum.

Flestir þeir sem urðu varir við ferðir Nataliu í Reykjavík höfðu orð á því hvað hún væri einstaklega fögur og sæist langa leið að þarna væri á ferðinni ofurfyrirsæta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.