Viðskipti innlent

Mikill verðmunur á skólabókum

Mynd/GVA

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Farið var í sex verslanir og skoðað verð á 27 algengum nýjum bókum. Einnig voru skoðaðir tíu titlar á fjórum skiptibókamörkuðum. Mikill munur reyndist á verði nýrra og notaðra námsbóka og var munurinn oftast um eða yfir 100%.

Nýjar bækur oftast ódýrastar í Griffli

Mál og menning við Laugveg var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á 17 titlum af 27 og Penninn-Eymundsson var með hæsta verðið á 15 titlum af 27.

Griffill var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari könnun en 15 titlar af 27 voru á besta verðinu hjá þeim. Á eftir þeim kemur Bóksala stúdenta þar sem 9 titlar af 27 voru ódýrastir, en þar er veittur 10% fastur afsláttur af íslenskum bókum sem reiknaður var inn í verðið.

Notaðar bækur ódýrastar í Pennanum-Eymundsson

Á skiptibókamörkuðunum leit þetta öðruvísi út. Penninn-Eymundsson var oftast með lægsta útsöluverðið, eða á átta titlum af tíu, en tekið er fram að þegar könnunin var gerð voru þeir með 20% afslátt á kassa af skiptibókum sem er reiknað inn í verðið.

Office 1 var oftast með hæsta útsöluverðið á notuðum skólabókum eða á átta titlum af tíu. Verðmunur á milli skiptibókamarkaðanna var í flestum tilvikum um eða yfir 30%.

Verð á algengum bókum breytist oft ört

„Námsmenn ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðar bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara," segir á heimasíðu ASÍ.

Kannað var verð í eftirtöldum verslunum: Máli og menningu Laugavegi, Bóksölu stúdenta Hringbraut, Pennanum-Eymundsson Hallarmúla, Office 1 Skeifunni, Griffli Skeifunni og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Í öllum verslunum voru seldar nýjar bækur en notaðar bækur voru ekki seldar í Bóksölu stúdenta og Iðnú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×