Viðskipti innlent

Landsbjörg og Skyggnir í samstarf

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur samið við Skyggni um rekstur á upplýsingatækniumhverfi félagsins. Skyggnir mun annast rekstur lykilkerfa, vöktun á búnaði og neti Landsbjargar og afritun á tölvugögnum úr tölvukerfum þess.

Í tilkynningu segir þá muni Landsbjörg fá aðgang að ráðgjöf og þjónustu tæknimanna. Um er að ræða viðbót við fyrri samning milli Skyggnis og Landsbjargar (SL).

„Markmiðið með samstarfinu er að efla öryggi og auka hagræðingu í rekstrarumhverfi SL, svo sem með sýndarvæðingu í upplýsingatækniumhverfi sem felur í sér lækkun á rekstrarkostnaði tölvukerfa og dregur úr fjárbindingu í vélbúnaði. Þá verða kerfi vöktuð allan sólarhringinn alla daga ársins af Þjónustumiðstöð Skyggnis, en gerð er krafa um háan uppitíma kerfanna sökum mikilvægi þeirra," segir ennfremur.

SL keyrir aðgerðarkerfi sitt í Microsoft SharePoint í samstarfi við TM Software, sem er systurfélag Skyggnis. „Kerfið heldur utan um alla starfsemi félagsins. Viðbragðshraði og nákvæmni í útköllum er kjarni í starfsemi okkar og því mikilvægt að öryggi gagnanna og rekstur kerfisins sé tryggt með aðkomu Skyggnis," segir Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Skyggnir og SL skrifuðu jafnframt undir styrktarsamning og er félagið núna einn af aðalstyrktaraðilum Landsbjargar til þriggja ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×