Enski boltinn

Benitez má eyða peningnum sem fæst fyrir söluna á Babel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Babel og Rafa Benitez.
Ryan Babel og Rafa Benitez. Mynd/AFP
Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur fengið þau skilaboð frá eigendum félagsins að hann megi eyða þeim peningum í leikmannakaup sem fást fyrir söluna á Hollendingnum Ryan Babel. Þetta kemur fram á The Times.

Liverpool er þegar búið að selja þá Andriy Voronin til Dinamo Moskvu og Andrea Dossena til Napoli og fékk um sex milljónir punda fyrir þá. Það var hinsvegar ákvörðun félagsins að spara þann pening þar til í sumar.

Ryan Babel er samt enn á sölulistanum og Liverpool vill fá um ellefu milljónir punda fyrir hann. Birmingham hefur sýnt hollenska sóknarmanninum mikinn áhuga en Liverpool hefur þegar hafnað tilboði upp á 9 milljónir punda.

Takist Liverpool að fá ásættanlegt verð fyrir Ryan Babel þá segir The Times að spænski stjórinn megi nota þann pening til þess að finna nýjan leikmann í staðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×