Innlent

Jón Ásgeir sver af sér öll afskipti af stjórnun Glitnis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson segist ekki hafa haft nein bein afskipti af stjórnun Glitnis.
Jón Ásgeir Jóhannesson segist ekki hafa haft nein bein afskipti af stjórnun Glitnis.

Jón Ásgeir Jóhannesson, einn stærsti hluthafinn í Glitni banka fyrir hrun, sver af sér öll afskipti af stjórnun bankans í eiðsvörnum vitnisburði fyrir Hæstarétti í New York. „Ég hef ekki gegnt starfi stjórnanda hjá Glitni," segir Jón Ásgeir í vitnisburðinum.

„Þótt ég hafi þekkt Lárus Welding, forstjóra fyrirtækisins, nokkuð vel og hafi getað sent honum tölvupóst beint varðandi viðskiptatækifæri fyrir bankann stjórnaði ég ekki og reyndi aldrei að stjórna rekstrinum," segir Jón.

Hann segist hafa sent tölvupósta til Lárusar Welding, sem stór fjárfestir og viðskiptavinur og samskipti sín við bankann hafi verið á allra vitorði. Þá bendir hann á að fyrirtæki sem hann fjárfesti í hafi einnig verið í miklu sambandi við hina tvo stóru bankana, Landsbankann og Kaupþing.

Eins og fram hefur komið hefur slitastjórn Glitnis stefnt Jóni Ásgeir, Ingibjörgu Pálmadóttur konu hans og sex öðrum athafnamönnum sem tengdust rekstri Glitnis og FL Group með einum eða öðrum hætti. Þeim er stefnt fyrir dómstól í New York. Þau hafa krafist frávísunar og telja að varnarþing þeirra eigi að vera á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×