Viðskipti erlent

Ólíklegt að brotleg lönd verði svipt atkvæðisrétti

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands.Fréttablaðið/AP
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands.Fréttablaðið/AP

Fulltrúar Þýskalands og Frakklands reyna að fá fulltrúa annarra ríkja Evrópusambandsins (ESB) til að styðja nýjar reglur um ríkisútgjöld sem nauðsynlegar séu til að forða annarri skuldakreppu í Evrópu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti mættu til tveggja daga ráðstefnu Evrópuríkja í Brussel í gær. Á ráðstefnunni fara þau fram á að búin verði til neyðarlausn sem skylda myndi lánafyrirtæki í einkaeigu til að taka á sig hluta kostnaðar við að bjarga mjög skuldugum löndum.

Um leið kalla þau eftir stuðningi við tillögu um að lönd sem ítrekað fari fram úr fjárlögum verði svipt atkvæðisrétti í ESB. Sú tillaga þykir afar róttæk og draga sumir embættismenn í efa að hún muni ná fram að ganga.

Herskár tónn er sagður í Angelu Merkel sem vill að þjóðir, sem ekki takist á við heilbrigðar aðgerðir í ríkisfjármálum, þurfi þá að horfa upp á að missa atkvæðisrétt sinn. „Ógni þjóð heilbrigði evrunnar skekur hún grunnstoðir ESB," sagði hún.

Leiðirnar sem Þjóðverjar og Frakkar leggja til eru líklega báðar sagðar kalla á breytingar á grunnsáttmála ESB. Breytingar á honum eru þó ekki auðsóttar og ferlið allt líklegt til að taka nokkur ár. Þannig tók tíu ár að fá samþykki Evrópuríkja fyrir gildandi Lissabon-sáttmála. Fyrri útgáfum sáttmálans var árið 2005 hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi, auk þess sem Írar felldu sáttmálann nokkrum sinnum.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði afnám atkvæðisréttar aðildarríkja „óásættanlegt" og taldi tillögu um slíkt aldrei verða samþykkta í öllum 27 aðildarríkjunum.

Nokkrir þjóðarleiðtogar og embættismenn ESB tóku í gær undir orð hans. „Við horfum mjög gagnrýnum augum á allar breytingar á sáttmála ESB," sagði Josef Proell, fjármálaráðherra Austurríkis.

Angela Merkel er hins vegar sögð hafa gert stuðning við breytingar á sáttmálanum að skilyrði stuðnings Þjóðverja við strangari reglur um ríki sem fara fram úr fjárlögum, sem einnig eru til umfjöllunar á ríkjaráðstefnunni. Fjármálaráðherrar ESB lögðu í síðustu viku til viðvaranir og mögulegar sektir á ríki sem brjóta reglur sambandsins um skuldir og fjárlagahalla.

olikr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×