Viðskipti erlent

Telur silfur vera betri fjárfestingarkost en gull

Heimsmarkaðsverð á gulli hefur aldrei verið hærra í sögunni en verðhækkanir á gulli hafa valdið því að silfur hefur einnig hækkað í verði og hefur ekki verið hærra síðan árið 2008. Greinandi telur að silfur sé nú betri fjárfestingarkostur en gull.

Fjallað er um málið á börsen.dk en verð á gulli stendur nú í tæpum 1,268 dollurum á únsuna og búast flestir við að það fari brátt lækkandi. Hið sama gildir ekki um silfur en verð þess stendur í rúmlega 20 dollurum á únsuna.

Carsten Fritsch greinandi hjá þýska bankanum Commerzbank segir að silfur sé orðið samkeppnishæfara en gull á heimsmarkaðinum. Silfur hafi rofið 20 dollara múrinn í upphafi vikunnar og verð þess gæti haldið áfram að hækka.

Fritsch bendir á að það séu fjárfestingar í silfri sem keyri verðhækkanir á því í augnablikinu. Um 50% af því silfri sem unnið er í heiminum er notað í iðnaði á móti aðeins 10% af því gulli sem unnið er.

„Í ljósi þess er silfur betri fjárfestingakostur en gull," segir Fritsch.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×