Innlent

Almenningur fær orðið um framtíð Þingvalla

Heimir Már Pétursson skrifar

Almenningur verður kallaður til ráðgjafar um hvaða starfsemi eigi að fara fram á Þingvöllum en í dag er eitt ár liðið frá því hótel Valhöll brann þar til kaldra kola. Þjóðgarðsvörður segir þingvallanefnd vera að skoða allt skipulag þjóðgarðsins.

Það var ófögur sjón sem blasti við forsætisráðherra þegar hún kom á vettvang á Þingvöllum þennan dag fyrir einu ári eftir að Valhöll hafði brunnið.

„Maður trúir því varla að maður standi frammi fyrir þessum rústum hér," sagði Jóhanna.

Þingvallanefnd er að meta allt skipulag þjóðgarðsins á Þingvöllum upp á nýtt, ekki bara hvað skuli gert við valhallarlóðina. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segir margar hugmyndir uppi. Fyrrverandi rekstaraðilar hafi áhuga á að halda starfseminni áfram og það hafi fleiri. Einnig hafi komið upp hugmydnir um útileikhús, fundarskála og fleira.

„Við viljum leita til landsmanna hvað þetta snertir. Það hafa allir sterkar tilfinningar og skoðanir á Þingvöllum og hvað þar eigi að vera. Ætlunin að leita til almennings eftir hugmyndum," segir Ólafur Örn Haraldsson

Þetta verði gert í lok sumars og tillögur nefndarinnar ættu að geta legið fyrir eftir rúmt ár.

Þess má geta að í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár síðan Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, lést í eldsvoða á Þingvöllum. Eldur kom upp í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum og létust Bjarni, eiginkona hans Sigríður Björnsdóttir og barnabarn þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×