Viðskipti innlent

Riftunarmál gegn fyrrverandi bankastjórum þingfest

Fyrrverandi bankastjórar Landsbankans. Mynd/ BG.
Fyrrverandi bankastjórar Landsbankans. Mynd/ BG.
Riftunarmál Landsbankans vegna uppgjörs á kaupaukasamningum upp á 400 milljónir króna rétt fyrir bankahrun voru þingfest í morgun. Riftunarmálin beinast gegn fyrrverandi bankastjórum Landsbankans og einum millistjórnanda.

Eins og fréttastofa greindi frá í síðustu viku ætlar slitastjórn Landsbankans að krefjast fjögur hundruð milljóna króna af fyrrverandi yfirstjórnendum bankans og einum millistjórnanda en þeir innleystu kaupréttarsamninga skömmu fyrir hrun - þrátt fyrir að þeir væru ekki innleysanlegir fyrr en um tveimur mánuðum síðar.

Mál Sigurjóns Árnasonar og Halldórs Kristjánssonar, fyrrverandi bankastjóra voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Mál stjórnanda fyrirtækjasviðs var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Málunum var öllum frestað um nokkrar vikur, á meðan lögmenn útbúa greinargerðir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er Sigurjón Árnason krafinn um 200 milljónir króna og Halldór Kristjánsson og yfirmaður fyrirtækjasviðs krafnir um hundrað milljónir hvor.

Hingað til hefur slitastjórnin lokið nokkrum riftunarmálum með samkomulagi og heimtum á um einum og hálfum milljarði króna.

Þá er slitastjórnin með í lokaundirbúningi tvö skaðabótamál þar sem tjón bankans er talið nema tugum milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×