Fótbolti

Er Nemanja Vidic nokkuð meiddur? - Sir Alex Ferguson efast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson og Nemanja Vidic á blaðamannafundi.
Sir Alex Ferguson og Nemanja Vidic á blaðamannafundi. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var augljóslega fyrir miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að serbesnki miðvörðurinn Nemanja Vidic treysti sér ekki til að spila fyrri leikinn á móti AC Milan í Meistaradeildinni í kvöld.

Sir Alex Ferguson gat ekki leynt óánægju sinni með Vidic á blaðamannafundinum þar sem hann útskýrði af hverju Serbinn kæmi ekki með til Ítalíu.

„Það er erfitt að átta sig á stöðunni með hann því hann telur sig þurfa að æfa mjög mikið. Hann er búinn að æfa með okkur síðustu tíu daga en telur sig samt ekki tilbúinn í að spila leikina," sagði Sir Alex Ferguson en samkvæmt mati læknaliðs United þá var Vidic klár í að spila leikinn í kvöld.

Nemanja Vidic hefur misst af níu leikjum Manchester United í röð eða frá því að hann dróg sig út úr hópnum í upphitun fyrir bikarleikinn afdrifaríka á móti Leeds United.

Einhverjir vilja meina að Serbinn sé að reyna að komast frá Manchester United en Ferguson segist endilega vilja halda, einum besta miðverði í heimi, áfram á Old Trafford.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×