Innlent

Friðjón aðstoðar Bjarna Ben

Friðjón R. Friðjónsson
Friðjón R. Friðjónsson
Friðjón R. Friðjónsson tekur í dag tímabundið við starfi aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Kári Kristjánsson var aðstoðarmaður Bjarna Benediktsson þar til hann tók sæti á þingi í apríl síðastliðnum. Það gerði hann þegar að Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálftæðisflokksins, tók sér leyfi frá þingstörfum á meðan sérstakur saksóknari skoðar hvort tilefni sé til að taka málefni sem snúa að peningamarkaðssjóðum bankanna til rannsóknar. Illugi var í stjórn Sjóðs 9 hjá Glitni.

Friðjón stundaði nám í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur um 12 ára skeið starfaði við upplýsingatækni og miðlun. Friðjón hefur undanfarið starfað sem almannatengill hjá Góðum samskiptum en frá 2007 til ársloka 2009 bjó hann í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C. Þar starfaði hann við vefmiðlun og ráðgjöf, bæði sjálfstætt og hjá Globescope Inc. Frá 2002 til 2007 starfaði hann sem sérfræðingur á rekstrarskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Frá 2000 til 2002 vann hann sem vefforritari og viðskiptastjóri á Íslensku vefstofunni.

Á meðan Friðjón dvaldi í Bandaríkjunum sótti hann námskeið og fyrirlestra um kynningarmál og skipulag stjórnmálastarfs hjá hugveitum demókrata og repúblikana.

Friðjón hefur gengt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat í stjórn Heimdallar 1994-1996, í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1999-2005 og var varaformaður sambandsins 2003 til 2005. Hann hefur setið í stjórnum hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í stjórnum málefnanefnda flokksins. Hann er kvæntur Elizabeth B. Lay arkitekt og eiga þau tvær dætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×