Viðskipti erlent

Enska biskupakirkjan tapar stórt á fasteignabraski í New York

Enska biskupakirkjan hefur tapað 40 milljónum punda eða rúmlega 8 milljörðum kr. á hörmulegum fasteignakaupum í New York. Talsmaður kirkjunnar segir að búið sé að afskrifa þessa upphæð að fullu í bókhaldi kirkjunnar og nú sé verið að fara yfir hvaða lærdóma megi læra af málinu.

Um er að ræða Peter Cooper Village-Stuyvesant Tower á Manhattan sem er risastór íbúðasamstæða. Fasteignafélagið Tishman Speyer festi kaup á þessari samstæðu árið 2006 og borgaði 5,4 milljarða dollara fyrir. Um var að ræða stærstu fjárfestingu á þessu sviði í Bandaríkjunum og var heildarfjárhæðin öll tekin að láni.

Enska biskupakirkjan ákvað árið 2007, á toppi fasteignabólunnar í Bandaríkjunum, að fjárfesta fyrir 40 milljónir punda í þessu verkefni, fé sem síðan hefur gufað upp. Verðmæti Peter Cooper Village-Stuyvesant Tower er í dag talið nema um 1,8 milljarðar dollara.

Fram kemur í frétt á BBC að tapið á þessari einu fasteign nemi nærri 1% af heildareignum Ensku biskupakirkjunnar sem eru um 4,4 milljarðar punda. Tapið kemur í kjölfar verðfalls upp á 19,6% af fjárfestingum kirkjunnar á árinu 2008.

Talsmaður kirkjunnar segir að fjármálamenn hennar hafi farið vandlega í gegnum kaupin á sínum tíma með sérfræðingum sem töldu þau í lagi. Hinsvegar hafi framhald málsins kennt þeim að lán af fyrrgreindi stærðargráðu geti verið „eyðileggjandi".








Fleiri fréttir

Sjá meira


×