Skoðun

Viðskiptaráðuneytið var lagt niður

Svavar Gestsson skrifar skrifar
Ein skýringin á lögbrotunum í 10 ár með gengislánin er sú að mínu mati að einbeitt og hægt og bítandi unnu stjórnvöld að því markvisst og vitandi vits að leggja viðskiptaráðuneytið niður.

Það var sameinað iðnaðarráðuneytinu 1988 en ekki lagt niður með lagasetningu sem þó var reynt oftar en einu sinni. Það stöðvaði þáverandi stjórnarandstaða Alþýðubandalagsins. Rök okkar voru þau að viðskiptaráðuneytið væri mikilvægt efnahagsstjórnarráðuneyti. Fyrsta skrefið til að gera viðskiptaráðuneytið að engu var reyndar stigið 1987 þegar utanríkisviðskiptin voru tekin af ráðuneytinu og flutt til utanríkisráðuneytisins.

Rökin fyrir því að gera viðskiptaráðuneytið minna og minna og veikara og veikara voru þau að hans heilagleiki markaðurinn ætti að sjá um sig sjálfur. Það mætti ekki trufla gangverk hans á neinn hátt. Það væru til eftirlitsstofnanir en þær ættu eðli málsins samkvæmt að vera veikar; hlutverk þeirra væri að smyrja hjól markaðarins en ekki að hægja á þeim á neinn hátt né heldur að hafa áhrif á hraðgengi þeirra. Frá 1988 sátu fimm ráðherrar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum. Alltaf með bæði ráðuneytin í einu. Hlutverk þeirra var það aðallega að fá inn í landið erlend stórfyrirtæki - í iðnaðarráðuneytinu - og að veikja stjórnkerfin - í viðskiptaráðuneytinu. Þess vegna var enginn á vakt 2001 þegar Alþingi setti lögin um vexti; enginn fylgdi þeim eftir í stjórnkerfinu.

Enginn las lögin. Ekki í viðskiptaráðuneytinu. Ekki í Seðlabankanum. Ekki í Fjármálaeftirlitinu.

Semsé gjörsamlega ónýtt stjórnkerfi og það sem verra var: Vísvitandi ónýtt til þess að hans náð markaðurinn gæti farið á fleygiferð með himinskautum.

Þegar Björgvin G. Sigurðsson varð viðskiptaráðherra þá var ráðuneytið endurreist. 2007. En það var of seint. Þegar hann kom þar inn var ekki til fyrir hann skrifstofa, ekki ritari, ekki ráðuneytisstjóri. Varla nokkur maður sem sinnti eingöngu viðskiptaráðuneytinu. Markaðurinn átti að sjá um sig.

Frjáls, svo frjáls.

Þarna er skýringin á því að lögum var ekki framfylgt: Viðskiptaráðuneytið var varla til þessi 10 örlagaríku ár.










Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×