Enski boltinn

Ferguson ítrekar að hann ætlar ekki að kaupa í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur ítrekað að hann ætlar ekki að kaupa nýja leikmenn til félagsins nú í janúarmánuði.

United hefur átt í nokkrum vandræðum með varnarmenn enda margir slíkir verið frá vegna meiðsla á síðustu vikum. Nokkrir hafa þegar náð sér en menn eins og Nemanja Vidic og Rio Ferdinand eru enn meiddir.

Vidic átti reyndar að spila með United gegn Leeds í ensku bikarkeppninni um helgina en meiddist í upphitun.

„Meiðsli varnarmannanna hafa reynst okkur dýrkeypt," skrifaði Ferguson í leikskrá Manchester United um helgina. „En lausnin er ekki sú að kaupa okkur út úr meiðslavandræðunum. Ef einhver gæti bent mér á virkilega góðan miðvörð sem væri til í að spila með okkur í þrjá mánuði væri ég mikið til í að fá hann. En hvar ætti maður að finna slíkan leikmann?"

„Góðir leikmenn vilja gera þriggja ára samninga og ég þarf ekki á slíkri viðbót við leikmannahópinn að halda. Það er nú þegar nógu erfitt að skilja eftir góða leikmenn fyrir utan liðið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×