Innlent

Ráðuneytið tekur stöðuna á kjúklingnum

Bjarni Harðarson segir að málin séu til skoðunar í ráðuneytinu
Bjarni Harðarson segir að málin séu til skoðunar í ráðuneytinu
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur kallað eftir upplýsingum til að geta lagt mat á hvort innlendir kjúklingaframleiðendur ná að sinna eftirspurn neytenda. Búist er við að staðan skýrist betur á allra næstu dögum.

Samtök verslunar og þjónustu hafa krafist þess að Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, heimili aukinn innflutning á kjúklingi. Þess er ennfremur krafist að aðflutningstollar af kjúklingi verði afnumdir.

Í bréfi sem forsvarsmenn SVÞ sendu ráðherra í dag segir að vegna gríðarlegrar aukningar á salmonellusmitum hér á landi, með tilheyrandi förgun, nái framleiðendur ekki að anna eftirspurn.

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi ráðherra, segir þessi mál til skoðunar í ráðuneytinu en getur ekkert sagt til um líkur á því að farið verði að kröfum samtakanna.

Hann bendir á að þeir sem flytja inn kjúkling séu hagsmunaaðilar í þessu sambandi og að ráðuneytið muni leggja hlutlaust mat á stöðuna með hliðsjón af þeim gögnum sem aflað er. Þar á meðal eru upplýsingar um magn slátraðs kjúklings og birgðastaða framleiðenda.

Bjarni segir að ráðuneytið muni horfa til hagsmuna neytenda þegar mat verður lagt á stöðuna.




Tengdar fréttir

Krefja ráðherra um aukinn innflutning á kjúklingi

Samtök verslunar og þjónustu krefjast þess að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimili aukinn innflutning á kjúklingi. Forsvarsmenn samtakanna hafa sent Jóni formlegt bréf þess efnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×